Viðskipti innlent

16,7 milljarða hagnaður hjá Íslandsbanka

Sæunn Gísladóttir skrifar
Hagnaður Íslandsbanka dróst saman milli ára.
Hagnaður Íslandsbanka dróst saman milli ára.
Íslandsbanki hagnaðist um 16,7 milljarða eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins 2016, samanborið við 18,2 milljarða króna hagnað á sama tímabili 2014. En þá voru tekjur af einskiptisliðum umfangsmeiri, segir í tilkynningu frá bankanum.

Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi var 11,9 ma. kr. samanborið við 11,4 ma. kr. á sama tíma 2014. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 14% eiginfjárhlutfall A var 13,0% samanborið við 13,1% á sama tímabili 2014. 

Hreinar vaxtatekjur bankans voru 21,0 ma. kr., samanborið við 20,6 ma. kr. Árið 2014. Vaxtamunur var 2,9%, samanborið við 3,1% árið áður. Hreinar þóknanatekjur voru 9,9 ma. kr. og voru 16,6% hærri milli ára.

Kostnaðarhlutfall hækkar

Kostnaðarhlutfall var 56,3%, samanborið við 56,1% fyrstu níu mánuðina 2014. Bankaskattur og einskiptiskostnaður er undanskilinn við útreikning kostnaðarhlutfalls. Útlán til viðskiptavina jukust um 4% frá áramótum í takt við hagvöxt. Útlánaaukningin dreifist vel á mismunandi viðskiptaeiningar bankans.

Heildareignir voru 1.004 ma. kr. Innlán frá viðskiptavinum jukust um 10% milli ára og voru 581 ma. kr. í lok tímabilsins.

Hátt eiginfjárhlutfall

Eiginfjárhlutfall bankans var 29,2% (júní 2015: 28,3%) og eiginfjárhlutfall A (Tier 1) var 26,9% (júní 2015: 25,8%). Lausafjárstaða bankans er sterk og er umfram kröfur eftirlitsaðila og innri viðmið. Vogunarhlutfall var 18,3% við lok tímabilsins, sem telst hóflegt. Hlutfall lána með varúðarafskrift og lána með vanskil umfram 90 daga var 2,4% (júní 2015: 2,7%).

S&P og Fitch færðu lánshæfismat bankans í fjárfestingarflokk með stöðugum horfum í júlí og staðfestu mat sitt í nóvember. Íslandsbanki er eini íslenski bankinn í fjárfestingarflokki hjá báðum þessum matsfyrirtækjum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×