Skoðun

Aukin þekking á krabba­meinum er forsenda betri meðferðarúrræða

Erna Magnúsdóttir og Margrét Helga Ögmundsdóttir skrifar
Um miðja síðustu öld beitti Níels Dungal sér fyrir stofnun krabbameinsskrár á Íslandi og skrifaði: „Til að geta náð árangri í baráttunni við þennan skæða óvin er fyrsta skilyrðið að þekkja hann…“. Þessi orð eiga svo sannarlega enn við og hefur aukin þekking á krabbameinum leitt til mikilla framfara í meðferð sjúkdómsins á undanförnum áratugum.

Um þriðjungur Íslendinga greinist með krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni. Krabbamein er í raun samheiti ólíkra sjúkdóma, sem eiga það sameiginlegt að hópur fruma líkamans tekur að fjölga sér nær stjórnlaust og mynda æxli. Þessar frumur geta dreift sér og fjölgað sér á ólíkum stöðum líkamans og telst æxlið illkynja þegar það hefur innrás í aðra vefi.

Meðal grundvallaratriða í bættri meðferð krabbameina er að skilja hvaða eiginleikar aðgreina krabbameinsfrumur frá eðlilegum frumum líkamans, hvað veldur því að ekki er hemill á vexti þeirra og hvers vegna þær geta ferðast til fjarlægra vefja.

Vegna þess hve krabbamein eru flóknir sjúkdómar er mikilvægt að skoða rannsóknarspurningar sem þessar frá ólíkum hliðum. Þannig er nauðsynlegt að efla samstarf aðila sem beita mismunandi tækni eða hugmyndafræði í nálgun sinni til þess að finna nýja fleti. Vitneskja sem aflast á einu sviði er dýrmæt við hönnun rannsókna á öðru sviði. Þannig geta til dæmis faraldsfræðilegar upplýsingar haft áhrif á rannsóknir í frumulíffræði sem svo aftur geta leitt til nýrra meðferðarúrræða. Aukin þverfagleg samvinna á milli rannsóknasviða eykur skilvirkni rannsókna og hraðar á framförum á sviðinu.

Þétt samstarf

Árið 1971 skar Bandaríkjastjórn upp herör gegn krabbameini. Sú stríðsyfirlýsing markar tímamót í krabbameinsrannsóknum þar sem stuðningur við rannsóknir var efldur til muna í Bandaríkjunum og önnur lönd fylgdu í kjölfarið. Síðan 1971 hefur skilningur okkar á eðli krabbameina stóraukist. Þessi ávinningur síðustu hálfrar aldar grundvallast á því að ráðist hefur verið að vandamálinu úr öllum áttum af hendi vísindamanna og grettistaki verið lyft. Því er ljóst að nálgast þarf rannsóknarefnið á heildstæðan og þverfaglegan hátt með þéttu samstarfi mismunandi faggreina líf- og heilbrigðisvísinda.

Áhugi á slíku samstarfi leiddi til stofnunar Samtaka um krabbameinsrannsóknir á Íslandi fyrir tuttugu árum. Í samtökunum eru nú um 200 vísindamenn, sem eiga það sameiginlegt að stunda krabbameinsrannsóknir. Þetta eru meðal annars faraldsfræðingar, frumulíffræðingar, læknar, hjúkrunarfræðingar, lífeindafræðingar og meinafræðingar.

Markmið samtakanna er að efla samvinnu þessara aðila og skapa vettvang fyrir umræðu um nýjustu rannsóknir og framþróun í krabbameinsfræðum um heim allan. Þannig hafa samtökin styrkt ungt vísindafólk til þess að kynna rannsóknir sínar erlendis og færa þekkingu heim.

Við sem stundum krabbameinsrannsóknir finnum fyrir miklum stuðningi og áhuga almennings á störfum okkar. Við viljum kynna rannsóknir okkar fyrir öllum sem áhuga hafa, spjalla og svara spurningum. Þannig viljum við ekki eingöngu stuðla að samvinnu milli rannsóknaraðila, heldur einnig við almenning í landinu.

Laugardaginn 14. nóvember verða Samtök um krabbameinsrannsóknir á Íslandi með opið hús í Iðnó klukkan 14-16. Við hvetjum alla til þess að koma og spjalla við vísindamenn, hlusta á örerindi um krabbameinsrannsóknir, skoða veggspjöld og gæða sér á kaffi og köku.




Skoðun

Skoðun

Tjáningar­frelsi

Laufey Brá Jónsdóttir,Sigríður Kristín Helgadóttir,Þorvaldur Víðisson skrifar

Sjá meira


×