Viðskipti innlent

Ekkert glerþak á Karolina Fund?

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Glerþakið er notað sem myndlíking fyrir ósýnilegar hindranir sem konur reki sig á þegar þær klífa metorðastigann og nái þar af leiðandi aldrei á toppinn.
Glerþakið er notað sem myndlíking fyrir ósýnilegar hindranir sem konur reki sig á þegar þær klífa metorðastigann og nái þar af leiðandi aldrei á toppinn. Vísir/Getty
„Hverfur glerþakið þegar fjöldinn fær að ráða?“ spyr Arnar Sigurðsson, einn af stofnendum fjármögnunarsíðunnar Karolina Fund. Tilefnið er að hann birti tölur sem sýna að nær alveg jafn mörg verkefni karla og kvenna fjármagnast í gegnum síðuna.

Raunar hafa konur örlítið forskot en af þeim 163 verkefnum sem fjármagnast hafa í gegnum Karolina Fund standa konur að baki 83 verkefnum en karlar 80. Hlutfallið er því nær alveg jafnt eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Eins og sjá má er skipting fjármögnunar eftir kynjum nánast jöfn.Karolina Fund
„Oft fer fram umræða um skarðan hlut kvenna úr ýmsum samkeppnissjóðum, s.s. kvikmyndasjóði. Það hefur verið bent á það að umsóknir kvenna í kvikmyndasjóð eru færri en hjá körlum og að úthlutanir eru miklu færri til kvenna undanfarin ár,“ segir Arnar og vísar þar til umræðu sem átti sér stað í sumar eftir að Baltasar Kormákur kallaði eftir því að kynjakvóti yrði settur á úthlutanir úr Kvikmyndasjóði.

Arnar minnist á glerþakið en stundum er það notað sem myndlíking fyrir ósýnilegar hindranir sem konur reki sig á þegar þær klífa metorðastigann og nái þar af leiðandi aldrei á toppinn. Fræg er t.d. auglýsing VR um útrýmingu kynbundins launamunar þar sem glerþakið kemur fyrir.

Einnig má finna lýsingar kvenna í kvikmyndageiranum á glerþakinu í umfjöllun Vísis og Fréttablaðsins um stöðu kvenna í kvikmyndageiranum hér á landi

„Okkur finnst það óneitanlega merkilegt að hlutfallið sé svona jafnt í ljósi þess að það er engin sérstök stýring í gangi hjá okkur varðandi verkefni. Það er enginn Lykla-Pétur sem velur verkefni eða dómnefnd önnur en almenningur sjálfur, þessi jafna skipting kemur bara af sjálfu sér.“

Fleiri konur en karlar styrkja verkefni á Karolina Fund

Samkvæmt tölum frá Karolina Fund er einnig lítill munur á þeirri fjárhæð sem verkefni karla og kvenna ná að safna. Verkefni með karla í forsvari safna rétt rúmlega 4.000 evrum að meðaltali á meðan verkefni með konur í forsvari safna rétt tæplega 4.000 evrum. Athygli vekur þó að karlar og konur hegða sér öðruvísi á Karolina Fund líkt og sjá má meðfylgjandi mynd.

„Karlar setja sér mun hærri markmið við safnanir, um 60 prósent hærri en verkefni kvenna, þeir virðast vera kokhraustari,“ segir Arnar. „En það sem safnast í raunveruleikanum virðist vera mjög svipað.“

Karlar reyna að sækja sér hærri upphæðir en það sem safnast í raun og veru er mjög jafnt á milli kynja.Karolina Fund
Konur eru einnig í naumum meirihluta þeirra sem styðja við verkefni á Karolina Fund, 53 prósent þeirra sem styrkja verkefni á síðunni eru konur. Þær virðast hinsvegar styrkja um lægri upphæðir í einu en karlar styrkja um 17 prósent hærri upphæð að meðaltali.

Karolina Fund er fjármögnunarsíða þar sem frumkvöðlar sem og aðrir geta safnað fjármagni fyrir fjölbreytt verkefni. Síðasti mánuður var metmánuður í sögu síðunnar sem sett var á laggirnar en í október söfnuðust alls ellefu milljónir.


Tengdar fréttir

Konur í kvikmyndagerð

Umræða um stöðu og þátt kvenna í kvikmyndagerð hefur verið þó nokkur síðustu misserin. Það er þakkarvert hve konur sem starfa við kvikmyndagerð hafa verið ötular við að benda á það ójafnvægi sem ríkir þegar kemur að hlut kvenna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×