Viðskipti innlent

Elísabet nýr framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs

Atli Ísleifsson skrifar
Elísabet Sveinsdóttir.
Elísabet Sveinsdóttir. Vísir
Elísabet Sveinsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs. Hún tekur til starfa um áramótin.

Í tilkynningu frá Kópavogsbæ kemur fram að Elísabet hafi gegnt stöðu forstöðumanns markaðssviðs Advania síðan í byrjun árs 2012. Hún hefur áður gegnt stöðu formanns ÍMARK – félags markaðsfólks,, auk þess að gegna hún formennsku í Félagi háskólakvenna og kvenstúdenta um þessar mundir.

„Á starfsferli sínum hefur hún stýrt markaðsmálum hjá Íslandsbanka og Glitni, unnið að stofnun nýs sviðs innan Icelandair og stýrt tónlistarhúsinu Salnum í Kópavogi, svo eitthvað sé nefnt. Þá vann hún um skeið sem fréttamaður á fréttastofu RÚV.

Elísabet hefur, ásamt samstarfskonum sínum, leitt átakið „Á allra vörum“ sem á síðustu árum hefur staðið fyrir myndarlegum landsöfnunum sem stutt hafa við bakið á krabbameinssjúkum, langveikum börnum, geðfötluðum, barist gegn einelti og unnið fleiri þörfum samfélagslegum málefnum brautargengi,“ segir í tilkynningunni.

Elísabet er með MBA-próf frá Háskóla Íslands og próf í hagnýtri fjölmiðlun frá sama skóla. Þá stundaði hún nám í Rockford University í Bandaríkjunum að stúdentsprófi loknu. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×