Viðskipti innlent

Félag sem áður rak Júník gjaldþrota

Birgir Olgeirsson skrifar
Sara Lind Pálsdóttir heldur áfram rekstri verslunar Júník í Kringlunni undir nýju félagi. Rekstri verslunar Júník í Smáralind hefur hins vegar verið hætt.
Sara Lind Pálsdóttir heldur áfram rekstri verslunar Júník í Kringlunni undir nýju félagi. Rekstri verslunar Júník í Smáralind hefur hins vegar verið hætt. Vísir/GVA
„Við höfum alltaf borgað okkar skuldir og starfsmenn okkar hafa alltaf fengið launin sín,“ segir Sara Lind Pálsdóttir, annar af eigendum tískuvöruverslunarinnar Júník, en félag sem áður hélt utan um rekstur Júník hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Félagið sem um ræðir nefnist JS Föt og fylgihlutir, sem áður hét Júníkehf, en það var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þann 12. nóvember síðastliðinn.

Hélt félagið utan um rekstur verslana Júník í Smáralind og Kringlunni og útsöluverslun (outlet) í Bæjarlind í Kópavogi. Sara Lind segir Júník merkið nú vera komið undir rekstur félagsins Júník Kringlan ehf. Sara Lind á helming í því fyrirtæki á móti Kjartani Sævari Magnússyni.

Verður rekstri verslunarinnar í Kringlunni og útsöluverslunarinnar í Bæjarlind haldið áfram en versluninni í Smáralind hefur verið lokað.

„Við fórum kannski aðeins fram úr okkur með því að opna tvær búðir,“ segir Sara Lind sem segir reksturinn í Smáralind hafa verið erfiðan. Júník hafi viljað losna út úr Smáralind en forsvarsmenn verslunarmiðstöðvarinnar ekki fallist á það nema að greidd yrði leiga fram í tímann, að sögn Söru. „Það var þungur rekstur í Smáralind sem hélt okkur niðri og við komumst ekki út úr því, þannig að verslun Júník í Smáralind fór á hausinn,“ segir Sara Lind.

Lögbirtingablaðið birti í dag svokallaða innköllun í tengslum við gjaldþrotaskipti JS Föt og fylgihlutir en þar skorar skiptastjóri félagsins, Björgvin Þórðarson, á alla þá sem telja sig eiga inni hjá félaginu að lýsa kröfum sínum fyrir skiptastjóra í búinu innan tveggja mánaða frá birtingu innköllunarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×