Skoðun

Í skerjagarðinum

Pétur Gunnarsson skrifar
Útvarp allra landsmanna minnir um þessar mundir einna helst á skúturnar frönsku þegar þær hröktust í illviðrum of nærri landi í Suðursveitinni forðum tíð og fólk fylgdist í ofvæni með því af bæjarhellunni hvort fleyið myndi taka niðri og stranda með tilheyrandi kærkomnu góssi sem það gæti nýtt sér. Þá var um að ræða örsnauða bændur, nú fólk í fjölmiðlabraski sem munar í tekjustofna RÚV. Fyrir utan þá harðsnúnu, en fámennu, sveit sem dreymir um að múlbinda alla þjóðfélagsumræðu á Íslandi.

Og rökin eru þessi: „Það er ekkert sem ríkisútvarpið gerir sem einkareknir miðlar gætu ekki gert jafn vel eða betur.“

En þá vaknar spurningin: af hverju gera þeir það ekki? Hvar eru útvarpsþættirnir um sögu okkar og samtíð, tónlist, myndlist, sagnalist, viðtöl að ógleymdum upptökum af málþingum og fundum sem Ríkisútvarpið hefur verið svo ötult að taka upp og færa okkur heim í stofu?

Hitt er annað mál að auglýsingaáþjánin sem tröllríður sjónvarpshluta miðilsins er með öllu óboðleg (ég taldi þrjátíu auglýsingar á milli tveggja dagskrárliða síðastliðið laugardagskvöld). Ríkissjónvarpið hefur fyrir löngu sýnt og sannað að því er ekki treystandi fyrir auglýsingum, það verður að taka þann bikar frá því og tryggja stofnuninni framlög úr sameiginlegum sjóðum landsmanna sem dugi til rekstrarins.

Óheillaspor

Ég er sammála menntamálaráðherra núverandi um að það beri að afhlutafélagavæða stofnunina, þ.e. að afturkalla óheillaspor sem var stigið árið 2007 og snerist strax í skrípaleik. Hvers vegna getur stofnun á borð við útvarp allra landsmanna ekki horft til háskóla allra landsmanna um stjórnunarfyrirkomulag? Háskólasamfélagið kýs sér rektor sem hefur sér til halds og trausts ráð sem er í megin­atriðum sett saman af þeim sem kenna og nema við skólann og hefur reynst með þeim ágætum að Háskóli Íslands er sú stofnun samfélagsins sem hvað mests trausts nýtur. Flokkspólitískir fingur ná þar engu gripi.

Að selja Ríkisútvarpið? Hvernig þá? Ríkisútvarpið varðveitir upptökur frá rúmlega 80 ára ferli í orðum, tónum og myndum – hver ætti að vera þess umkominn að henda þeim verðmætum á markað? Ekki frekar en hægt væri að sækja handritin inn á Árnastofnun og senda þau á uppboð (ég vona að ég sé ekki vekja neinar hugmyndir).

Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra, nefndi í nýlegu bloggi að það hefði fjarað undan RÚV og þeir sem stæðu um það vörð væru aðallega þeir sem hefðu hag af því, beint eða óbeint. Ekki bendir margmennið sem sló skjaldborg um útvarpshúsið þegar atlagan var gerð að stofnuninni 28. nóvember 2013 til þess. Eða fjöldinn sem troðfyllti sal og anddyri Háskólabíós á baráttufundi 4. desember sama ár. Kannski að sá breiði fjöldi þurfi að bjóða fram í næstu alþingiskosningum til að freista þess að koma útvarpi allra landsmanna í örugga höfn? Í skjól fyrir öflum sem leynt og ljóst búa við þá þráhyggju að ganga af því dauðu.




Skoðun

Sjá meira


×