Skoðun

Afturhvarf til fortíðar

Jóhannes M. Gunnarsson skrifar
Lýður Árnason, læknir og vaktstjóri Lýðræðisvaktarinnar, birti greinarstúf í Fréttablaðinu hinn 28. október um skipan heilbrigðis­þjónustunnar í landinu. Hann bendir þar réttilega á að „heilbrigðismál á Íslandi hafi allt of lengi verið í klakaböndum“. Heildstæð stefna hefur illa eða ekki náð fram að ganga af ýmsum ástæðum, m.a. hagsmunaárekstrum eða „síþrætu“ sem er landlæg og afneitar öllum rökum hvort sem þau eru byggð á sannanlegum staðreyndum og þekkingu eða ekki.

Landspítali er háskólasjúkrahús og sem slíkt er það og verður meginsjúkrahús landsins, en engu að síður örsmátt á mælikvarða slíkra stofnana hvort sem litið er til nágrannalanda eða umheimsins. Þrátt fyrir smæð tekst honum að mennta og þjálfa lækna og aðra heilbrigðisstarfsmenn sem eftirsóttir eru víðast um heim og sem vísindastofnun er hann einn stærsti byggingarsteinn fræðasamfélagsins sem hefur fært Háskóla Íslands í hóp 300 bestu háskóla heims.

Framfarir í heilbrigðisþjónustu margra undanfarinna áratuga byggja á hratt vaxandi sérhæfingu heilbrigðisstarfsmanna, en á móti þrengist óhjákvæmilega þekk­ingar­svið hvers og eins. Þessi þróun er alþjóðleg og verður ekki snúið við. Í þeim efnum erum við ekkert eyland. Til þess að viðhalda nægjanlegri þekkingarbreidd háskólasjúkrahúsa er ekkert annað svar til en að sameina kraftana og slá saman sjúkrahúsum. Þetta hefur verið gert í stórum stíl um öll Vesturlönd síðustu áratugi rétt eins og hér á landi þó hér hafi verkið ekki verið fullkomnað enn sem komið er. Í fámenni okkar og smæð er þetta ekki síður mikilvægt. Hugmynd Lýðs um að dreifa þeim þekkingarstabba sem við eigum er fráleit og enn verri fyrir það að vera komin frá heilbrigðisstarfsmanni. Þó er hún miklu verst fyrir þá uppástungu læknisins að halda því fram að „upplagt væri að hafa krabbameinsdeildina á St. Jósepsspítala í rólegu umhverfi?…“ Mér er til efs að nokkur sérgrein sé bundnari annarri stoðstarfsemi og sérgreinum. Gildir þar raunar gagnkvæmni gegn öðrum sérgreinum. Tími einangraðra sérgreina og einyrkja í heilbrigðisþjónustu er liðinn.

Braut vaxandi sérhæfingar heilbrigðisþjónustunnar er þegar mörkuð á heimsvísu og þar munum við engu breyta, sem betur fer, því hún er bæði forsenda og afleiðing framfara. Á þeirri braut mun sameinaður Landspítali sinna verkefnum sínum best.




Skoðun

Sjá meira


×