Skoðun

Valdníðsla Matvælastofnunar

Hilmar Egill Jónsson skrifar
Við fjölskyldan vorum búin að bíða lengi eftir mánudeginum örlagaríka, 2. nóvember síðastliðinn. Þá voru liðin þrjú ár síðan við sóttum fyrst um leyfi til að flytja hundinn okkar, Rjóma, heim til Íslands eftir að hafa tekið ákvörðum um að flytja aftur heim til Íslands eftir að hafa búið í Noregi í eitt og hálft ár.

Það kom okkur heldur betur óþægilega á óvart við lestur nýfallins dóms, að við hefðum við ekki fært næg rök til að hnekkja úrskurði MAST um að Rjómi væri af hættulegu hundakyni. Þrátt fyrir að kyn hans sé ekki talið hættulegt í neinu öðru landi sem við miðum okkur við og hundategundin leyfð í öllum okkar nágrannalöndum. Þrátt fyrir áralanga rannsóknarvinnu, heimildaöflun og ráðfæringar við sérfræðinga erlendis og heima á Íslandi.

Málið á sér vart hliðstæðu því til að byrja með á ég ekki að þurfa að hnekkja rökum Matvælastofnunar (MAST), heldur á stofnunin að sanna og sýna fram á það með gögnum og heimildum að rök hennar standist þegar verið er að nýta undanþágu reglna. Eins og stendur í reglugerðinni þá eiga sérfræðingar MAST að sýna fram á rökstudda yfirlýsingu yfirdýralæknis, þ.e.a.s. segja leggja fram gögn, sem þeir hafa aldrei gert.

Þann 13. október síðastliðinn var málið flutt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og þó nokkrir lögfróðir menn mættu í dóminn til að hlýða á málflutninginn. Eftir að honum lauk furðuðu margir sig á því hversu lítið af rökum komu frá MAST og engin þeirra voru rökstutt með neinum heimildum, greinum, fræðiritum, skólabókum eða fordæmisgefandi málum. Það eina sem MAST lagði til var grein frá árinu 2000 af vef CNN þar sem fram kemur að English Bull Terrier hafi bitið einstakling. Fyrir utan það kom ekkert annað til að rökstyðja þeirra mat á tegundinni. Fyrir hönd MAST komu ekki einu sinni vitni fyrir dóminn, ekki sérfræðingar á þeirra vegum, ekki einu sinni bréf, ekki svo mikið sem yfirlýsing sínu máli til stuðnings. Þeir hreinlega vildu ekki svara neinum spurningum.

Það er ögn skrítið að það sé ekki hægt að þvinga ríkisstarfsmenn til að koma og svara fyrir sínar ákvarðanir fyrir rétti. Maður hefði haldið að einmitt þeir sem fara með vald fyrir hönd Íslands væru einmitt þeir sem ættu að þurfa að svara fyrir ákvarðanir sínar fyrir dómi. En þennan dag kom enginn frá MAST. Einungis lögfræðingur með tvær hendur tómar, að undanskilinni fyrrnefndri 15 ára gamalli grein af CNN.

Í málsgreininni sem MAST byggir allt sitt mál á, og ætlar að nota til að synja mér um að flytja fjölskylduhundinn heim, segir að yfirdýralæknir hafi vald til þess að banna ákveðna „hættulega“ hunda með rökstuddri yfirlýsingu. Sú yfirlýsing hefur aldrei litið dagsins ljós. Í raun hefði MAST allt eins getað sent frá sér yfirlýsingu um að English Bull Terrier sé blanda af ísbirni og krókódíl og enginn skuli efast um það meir. Samkvæmt dómi Héraðsdóms þarf MAST ekki að rökstyðja sínar ákvarðanir og Rjómi gæti því allt eins verið afkvæmi fyrrgreindra dýra, og hana nú. Þeir eru jú sérfræðingar í hundum, en ég hef mínar efasemdir um að engin sérfræðinga Mast hafi átt hund. Maður hefði haldið að það væri ekki bara nóg að þylja eitthvað upp sem sannleik án rökstuðnings. Hafa skal það sem sannara reynist.

MAST hefur skrifað sínar reglugerðir með norsku reglugerðina til hliðsjónar. Í Noregi eru English Bull Terrier hundar hins vegar leyfilegir. Ég vil benda MAST á að í Noregi er fyrir hendi gríðarlega mikil reynsla af þessari tegund og ekki sjá sérfræðingar þarlendis ástæðu til að banna þá. Að því sögðu finnst mér ótrúlegt hvernig MAST þykist hafa þessa „sérstöku“ skoðun á þessari hundategund sem er ekki í samræmi við skoðanir reynslumikilla sérfræðinga sem hafa umgengist kynið í áratugi.

Ég lagðist í gríðarlega heimildasöfnun fyrir málflutninginn. Á meðal framlagðra gagna voru rannsóknir frá www.atts.com, sem er eitt fremsta skapgerðarrannsóknarfélag í Bandaríkjunum á hundaskapgerð, og þar var hundakynið langt yfir meðallagi og fyrir ofan flestar hundategundir sem leyfðar eru á Íslandi fyrir utan Labrador sem var lítillega fyrir ofan English Bull Terrier. Þá lagði ég einnig fram viðamestu rannsókn sem gerð hefur verið í Danmörku yfir þá hunda sem bíta mest eða valda skaða bæði á fólki, hundum og öðrum dýrum.

Ættfræði á bakvið það að hann sé náskyldur Pit Bull Terrier er svo langt frá því að vera rétt og í raun fráleitt. Það þarf ekki annað en að skoða myndir af báðum hundategundum til þess að átta sig á fáránleikanum að ég þurfi að sýna fram á það með ítarlegri hætti en gert var fyrir rétti með þykkum bunkum af gögnum.

Niðurstaða dómsins var sú að þrátt fyrir að það standi í áðurnefndri málsgrein að MAST þurfi að rökstyðja mál sitt ef þeir meina hundum aðgang, sem ekki eru á bannlista, þá sér dómarinn enga ástæðu til þess að spyrja MAST; „Hvaðan koma þessi rök, eða getið þið bent á heimildir.“ Ég hef ítrekað kallað eftir þeim heimildum, fræðiritum, rannsóknum eða öðrum gögnum sem MAST segir ákvörðun sína byggja á, en viðleitni mín hefur enn ekki borið árangur. Eru þessir starfshættir faglegir eða viðunnandi? Viðbragðaleysi stofnunarinnar eru ekki síður furðuleg í ljósi þess að á Íslandi er við lýði upplýsingaskylda, sem kveður á um að stofnunin eigi að framvísa þeim gögnum sem ákvarðanir hennar byggja á.

Svo virðist sem að MAST hafi algjört geðþóttavald til þess að gera það sem stofnuninni sýnist, þegar hún vill, og þarf ekki einu sinni að útskýra það fyrir dómi. Er það vænlegt að fela ríkisstofnun slíkt vald til að leika sér með þegar fólk og fjölskyldur eiga í hlut? Til hvers er listi yfir bannaða hunda þegar stofnunin getur bannað ákveðnar hundategundir eftir eigin geðþótta en ekki á faglegum grunni byggðum á rannsóknarvinnu og heimildaöflun?

Mín ósk er að stofnunin verði látin svara fyrir sig í Hæstarétti, og því hef ég ákveðið að áfrýja niðurstöðu héraðsdóms þangað.

Það getur vart talist eðlilegt að lítil fjölskylda þurfi að berjast gegn geðþóttaákvörðun ríkisstofnunar, með miklum kostnaði. Það á ekki að vera mitt hlutverk að færa rök fyrir því að fjölskylduhundurinn sé öruggur, heldur auðvitað ríkisstofnunarinnar að færa haldbær rök fyrir því af hverju hann er ekki velkominn til Íslands.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.