Innlent

Orð leiðbeinandi miðils um barnaníð ekki dæmd dauð og ómerk

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hæstiréttur sneri dómi Héraðsdóms Reykjaness.
Hæstiréttur sneri dómi Héraðsdóms Reykjaness. vísir/gva
Þórunn K. Emilsdóttir, leiðbeinandi miðill og rithöfundur, hefur verið sýknuð af kröfu fyrrverandi eiginmanns móður sinnar um að ummæli sem féllu í bók hennar og á Facebook-síðu verði dæmd dauð og ómerk. Þetta var niðurstaða Hæstaréttar í dag sem sneri þar með niðurstöðu héraðsdóms.

Ummælin komu út í bókinni Valsað á milli vídda árið 2013. Í bókinni segir höfundur frá misnotkun og lætur í veðri vaka að hinn meinti gerandi hafi einnig misnotað önnur stúlkubörn.

Bókarkápa Valsað á milli vídda
Eftirfarandi ummæli, sem er að finna á blaðsínum 14-18 í bókinni, voru dæmd dauð og ómerk í héraði en Þórunni var ekki gerð refsing vegna þeirra; „Þegar ég var tíu ára gömul varð ég fyrir kynferðislegu ofbeldi“, „Þar sem ofbeldismaðurinn tengist heimilinu“, „Það var maðurinn sem hafði skaðað mig sem barn“, „Það kom í ljós að ég var ekki sú eina sem hann hafði misnotað, hann hafði misnotað stúlkur í fjölskyldunni allt frá fjögurra ára aldri þeirra“.

Gerandinn var ekki nafngreindur í bókinni en fósturfaðir hennar taldi fullvíst að þeim væri beint að sér. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þegar metið væri hvort umþrætt ummæli í bókinni hefðu farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis hennar og fælu í sér brot á friðhelgi einkalífs fósturföðursins yrði að taka tillit til þess hvernig þau væru orðuð. Í því sambandi skipti einkum máli að hvorki af einstökum ummælum né því samhengi sem þau hefðu verið sett fram í yrði ráðið að þau ættu við um hann.

Fyrir héraðsdómi bar maðurinn því við að hann gæti ekki ímyndað sér að nokkur hafi áttað sig á því að ummælin ættu við um hann en þau varða atvik sem áttu sér stað fyrir rúmum fjörutíu til fimmtíu árum. „Verður ekki talið að lesendur bókarinnar, sem ekki þekktu til aðstæðna, hafi getað áttað sig á því að með þeim væri vísað til stefnda,“ segir í orðrétt í niðurstöðu Hæstaréttar.

Þess var einnig krafist að ummæli sem rithöfundurinn lét falla á Facebook yrðu dæmd dauð og ómerk en því var hafnað. Málskostnaður fyrir Hæstarétti og í héraði, 1,2 milljónir króna, greiðist af fósturföður Þórunnar.


Tengdar fréttir

Áburður um barnaníð dæmdur tilhæfulaus

Í bók sem kom út á síðasta ári er sagt frá misnotkun og því haldið fram að hinn meinti gerandi hafi jafnframt misnotað önnur stúlkubörn. Allt þetta hefur nú verið dæmt sem uppspuni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×