Innlent

"Kjósendur eru ekki spilastokkur"

Snærós Sindradóttir skrifar
Ólöf Nordal er fyrrverandi og verðandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins
Ólöf Nordal er fyrrverandi og verðandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins VÍSIR/Valli
Að sækja aukið fylgi til unga fólksins og endurnýja forystuna. Þetta var kjarninn í framboðsræðu Ólafar Nordal til varaformannsembættis Sjálfstæðisflokksins á landsfundi í dag.

Ólöf sagði að fulltrúar flokksins gætu ekki ætlast til þess að auka fylgið ef þeir væru klæddir í föt frá 1980 og notuðu orðræðu frá 1929. „Ágætu landsfundarfulltrúar það eru blikur á lofti í stjórnmálunum. Það er þannig að kjósendur eru á iði og það er þannig að þeir spyrja spurninga og þeir kalla eftir hugmyndum um framtíð. Kjósendur eru ekki einhver spilastokkur sem hægt er að flytja á milli ára og kjörtímabila heldur lifandi afl sem gerir kröfur, vill eldmóð og hugsjónir.“

Ólöfu var tíðrætt um unga fólkið og framtíð landsins. „Stjórnmálaflokkar sem þróast ekki og fylgjast ekki með, þeir staðna. Þannig hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei verið og má aldrei vera. En samt hlaupum við ekki eftir duttlungum tískunnar enda eru pólitískir vindhanar gagnslausir. Forystusveit flokksins verður að átta sig betur á því  ð nýjar kynslóðir hafa alist upp við allt aðra heimsmynd en þá sem við ólumst upp við.“

Ólöf Nordal var varaformaður Sjálfstæðisflokksins á árunum 2010 til 2013. Hún þakkaði forvera sínum, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrir  hennar störf. Ræðu Ólafar var tekið með dynjandi lófataki og allur salurinn stóð upp í lok ræðunnar. Ólöf er ein í framboði. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×