Innlent

Leitað í hellum að Herði

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Leitað hefur verið að Herði síðan 14. október sl.
Leitað hefur verið að Herði síðan 14. október sl. Samsett
Leitað hefur verið í öllum hellum í kringum höfuðborgarsvæðið í dag og á útivistarsvæðum að Herði Björnssyni sem saknað hefur verið í tíu daga. Lögreglan segir allt benda til þess að hann vilji ekki finnast. Hann sækir í einveru og óttast fólk en engin hætta stafar af honum.

Á annað hundrað björgunarsveitarmenn af suðvesturhorni landsins hafa tekið þátt í leitinni í dag. „Við höfum þakið í raun og veru vel þéttbýlið í Reykjavík. Við erum að skoða núna svæði sem eru þessi opnu svæði þar sem að eru, hvað má segja, möguleiki á að dvelja. Það náttúrulega er eitthvað af útigangsfólki á þeim svæðum og við náttúrulega erum að ræða við fólk þar og erum að svona spyrja hvort að einhver hafi séð til Harðar.

Við náttúrulega erum bara að leita þar sem eru líkur á að hann finnist. Til dæmis í dag höfum við verið að skoða alla hella í kringum Reykjavík. Þetta eru 32 hellar sem er verið að fara inni í og það er verið skoða hvort bara hvort að hann gæti verið þar,“ segir Guðbrandur Örn Arnarsson verkefnastjóri aðgerðarmála hjá Landsbjörgu. Ekki er þó hægt að útiloka að hann sé annars staðar á landinu en á höfuðborgarsvæðinu.

Á gangi skólaus um nótt

Síðast er vitað um ferðir Harðar á Laugárásveginum í Reykjavík 14. október. Þá var hann á gangi um nótt skólaus. Hörður er 188 sentimetrar á hæð, grannur með hvítt sítt hár og rautt skegg. „Það virðist allt benda til þess að hann vilji ekki finnast. Þess vegna erum við að leggja svo mikla áherslu líka á að almenningur hjálpi okkur að finna manninn og leiti líka í þessu nærumhverfi sínu því hann gæti leynst þar. Þar sem við erum jafnvel ekki að leita eða það að hann sé á hreyfingu og fari framhjá okkur. Þess vegna erum við að biðja um alla hjálp sem við getum fengið,“ segir Unnar Már Ástþórsson varðstjóri hjá Lögeglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Guðbrandur segir að vel geti verið að Hörður viti ekki að leit hafi staðið yfir að honum. „Hann vill einveru. Getur óttast fólk og hann er alveg svona meinlaus í raun og veru. Það stafar engin hætta af honum og þetta er góður drengur höfum við heyrt frá öllum sem við höfum talað við. Þannig að hann bara þarf að komast til þeirra sem að geta annast hann og það er það sem við erum að stefna að,“ segir Guðbrandur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×