Innlent

Veggjalist slær í gegn í Fjölbrautaskóla Suðurlands

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Nýr áfangi við Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi hefur slegið í gegn en það er veggjalist þar sem nemendum gefst kostur á að fara út úr  kennslustofunni og mála veggi í bæjarfélaginu. Nokkrir nemendur rifu sig upp í morgun í snjónum, þrátt fyrir að það væri í frí í skólanum og tóku til við að munda penslana.

Veggurinn sem nemendur mála kallast bókaveggurinn en hann stendur rétt við Fjölbrautaskólann. Sveitarfélagið Árborg gaf leyfi fyrir að veggurinn yrði málaður en með því skilyrði að þemað væri Bókabæirnir austanfjalls en það er verkefni sem Árborg, Hveragerðisbær og Sveitarfélagið Ölfus taka þátt í. Þetta er í fyrsta skipti sem skólinn býður upp á áfanga í veggjalist en kennararnir eru tveir, eða þær Ágústa Ragnarsdóttir og Elísabet Harðardóttir.

„Við höfum verið svolítið óheppin með veður þannig að við erum að nota sunnudaginn núna til að vinna þó það sé komin snjór“, segir Ágústa.  En út á hvað gengur verkefnið ? „Það gengur út á það að fegra umhverfi sitt og nota listina til þess, færa málverkið aðeins út úr skólanum og stofnunum og gera það sýnilegra“. Ágústa segir verkefnið mjög skemmtilegt. „Þetta er mjög krefjandi, sérstaklega að vera svona háður veðrinu og hafa bara ákveðna tíma í vikunni til að vinna þetta. Þá er kannski akkúrat rigning þá og sól daginn eftir þegar tímarnir eru ekki. Sem betur fer þá eru nemendurnir tilbúnir að koma, eins og núna um helgi til að mála.“

Veggjamyndirnar eru mjög fjölbreyttar og litagleðin er mikil. Nemendur segja áfangann frábæran.

„Mér finnst þetta alveg rosalega skemmtilegt, þetta er mjög krefjandi og það er mjög skemmtilegt að mála svona  á veggi, og sjá hvernig árangurinn verður, þetta hefur maður aldrei gert áður,“ segir Halldóra Kristín Andrésdóttir, nemandi í veggjalist.

Hugrún Hjálmsdóttir er líka mjög ánægð með áfangann. „Já, mér finnst þetta mjög gaman, þetta er öðruvísi, þú ert ekki inn í kassanum. Mér finnst rosalega gaman í listaáföngunum í skólanum og líka fá að mála á vegg, hver vill ekki fá að mála á vegg. Eru ekki öll börn að krota á veggi, nú fáum við bara að gera það í skólanum", segir Hugrún.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×