Körfubolti

Haukur Helgi á leið til Njarðvíkur

Kolbeinn Tumi Daðason og Tómas Þór Þórðarson skrifa
Haukur Helgi Pálsson fagnar einu af fjölmörgum eftirminnilegum augnablikum á EM í Berlín þar sem hann fór á kostum.
Haukur Helgi Pálsson fagnar einu af fjölmörgum eftirminnilegum augnablikum á EM í Berlín þar sem hann fór á kostum. Vísir/Valli
Allt stefnir í að landsliðsmaðurinn Haukur Helgi Pálsson semji við lið Njarðvíkur í Domino’s-deild karla í körfubolta. Framherjinn samdi til sex vikna við þýska 1. deildar liðið Mitteldeutscher BC þann 29. september. Ekki er útlit fyrir að vera hans hjá félaginu verði lengri.



Haukur Helgi átti einnig í viðræðum við Grindavík og Stjörnuna en samkvæmt heimildum Vísis kom ekkert út úr þeim. Allar leiðir liggja til Njarðvíkur. Það eina sem stendur í vegi fyrir að tilkynnt verði um skiptin eru viðræður við erlent félag.

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Njarðvíkinga, staðfesti í samtali við Vísi að félagið hefði verið í viðræðum við kappann undanfarið en ekki væri búið að ganga frá neinu. Hann taldi að málin myndu skýrast á næstu dögum.

Nauðsynlegur styrkur fyrir Njarðvík

Haukur Helgi fór á kostum með íslenska landsliðinu í riðlakeppni Evrópumótsins í körfubolta í Berlín í september. Hann var næststigahæsti leikmaður Íslands með 12,8 stig að meðaltali í leik og var hann með 56 prósenta nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna. Aðeins fimm leikmenn voru með betri nýtingu í riðlakeppninni.

Ljóst er að Haukur Helgi yrði gríðarlegur styrkur fyrir Njarðvíkinga sem hófu tímabilið í baklás þegar ljóst var að Stefan Bonneau væri með slitna hásin og yrði ekki með liðinu í vetur. Bonneau fór á kostum með Njarðvíkingum í fyrra þegar liðið féll út í undanúrslitum Domino’s-deildarinnar eftir háspennu-lífshættu einvígi gegn KR.

Haukur Helgi hafði verið í viðræðum við nokkur íslensk félög áður en tilboð MBC kom óvænt upp á borðið. Njarðvík hefur unnið tvo leiki af þremur í upphafi tímabils.

Ekki náðist í Hauk Helga við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×