Körfubolti

Haukur Helgi til Þýskalands

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Haukur Helgi Pálsson tekur slaginn í Þýskalandi næstu vikurnar.
Haukur Helgi Pálsson tekur slaginn í Þýskalandi næstu vikurnar. vísir/valli
Haukur Helgi Pálsson, landsliðsmaður í körfubolta, er búinn að finna sér lið, en hann er að ganga frá sex vikna samningi við þýska 1. deildar liðið Mitteldeutscher BC.

Hörður Axel Vilhjálmsson, leikstjórnandi íslenska landsliðsins, spilaði með MBC í fyrra og fyrir tveimur árum, en yfirgaf þýska félagið og spilar nú í Grikklandi.

„Ég fékk tilboð í morgun um að fara út í sex vikur sem geta orðið átta vikur og svo er möguleiki á að klára tímabilið ef ég stend mig vel,“ segir Haukur Helgi í samtali við Vísi.

MBC varð fyrir því áfalli að missa lykilmann í meiðsli og á Haukur Helgi að fylla hans skarð næstu vikurnar. Hann verður hjá MBC í 6-8 vikur en gæti svo klárað tímabilið ef þýska félagið vill halda honum.

„Ég fer bara út í nótt og svo er fyrsti leikur á laugardaginn. Þarna fæ ég allavega að æfa með góðu liði og keppa á móti góðum liðum. Það eru allavega meiri möguleikar fyrir mig að skrifa undir hjá liði úti með því að spila þarna heldur en að vera hérna heima og gera ekki neitt,“ segir Haukur Helgi sem hefur tröllatrú á að hann geti heillað menn hjá MBC.

„Ég fer bara þarna út og læt eins og ég sé bestur. Það er eina leiðin,“ segir hann.

Haukur Helgi var á leið í viðræður við nokkur íslensk félög áður en tilboðið kom í morgun.

„Ég var á leið á fund með nokkrum liðum hér heima í dag en svo kom þetta tilboð bara klukkan sjö í morgun. Ég hringdi í öll liðin og þau óskuðu mér góðs gengis. Þau vildu helst að ég færi út,“ segir Haukur Helgi Pálsson.

Haukur Helgi spilað með LF Basket í Svíþjóð á síðustu leiktíð þar sem hann stóð sig vel, en hann var svo einn af bestu mönnum Íslands á EM í Berlín sem kláraðist fyrr í þessum mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×