Skoðun

Umræða á villigötum

Grétar Jónasson skrifar
Að undanförnu hefur mikilli umræðu verið hrundið af stað í fjölmiðlum um störf aðstoðarfólks (sölumanna) á fasteignasölum. Umræðan hefur einnig ratað inn á Alþingi.

Málflutningi hefur verið hagað með þeim hætti að mistök hafi verið gerð í lagasetningu í vor þegar inn í ný lög um sölu fasteigna var sett með skýrum hætti hvaða störfum neytendur í fasteignaviðskiptum ættu að geta treyst að hinn löggilti fasteignasali sinnti sjálfur persónulega og um leið aðstoðarfólk hans sinnti ekki.

Inn í hin nýju lög, sem er ein stærsta neytendalöggjöf landsins, voru með skýrum hætti settar niðurstöður úrskurða viðskiptaráðuneytisins og eftirlitsnefndar með fasteignasölum. Þessir úrskurðir hafa fallið undanfarin ár og varða alvarlegar athugasemdir hve langt aðstoðarfólk hefur gengið í störfum gagnvart neytendum. Það að lögin komi nú eins og þruma úr heiðskíru lofti og gerbreyti allri framkvæmd, eins og haldið er fram, er fjarri öllum sanni.

Þrátt fyrir framangreint er nauðsyn að sýna tillitssemi gagnvart fólki sem starfar í greininni og vill mennta sig til starfans eða hefur þegar hafið nám. Félag fasteignasala hefur lagt til skýrar lausnir gagnvart þessum aðilum sem einfalt er að koma á í gegnum reglugerð jafnframt því sem mætt er helstu athugasemdum sem settar hafa verið fram.

Með tillögunum er samþætt bóklegt nám og um leið verkleg störf viðkomandi nema á fasteignasölu.

Mjög ríkar kröfur eru gerðar til að öðlast opinber réttindi sem löggiltur fasteignasali og fá heimild til að hafa milligöngu um almennt stærstu viðskipti fólks á lífsleiðinni. Byggjast þær kröfur m.a. á 90 eininga námi á háskólastigi auk a.m.k. eins árs reynslu í störfum á fasteignasölu. Markmið nýrra laga um sölu fasteigna kemur skýrt fram í 1. gr. nýju laganna, þ.e. að tryggja neytendavernd. Með festu í löggjöf í þessum málum er Alþingi að tryggja að markmið laganna um neytendavernd náist fram.

Mikilvægt er í umræðu sem sett er í loftið um þessi mál að þess sé gætt að staðreyndum sé haldið til haga en málum ekki snúið á hvolf og látið sem engin forsaga sé að neinu hvað þessi mál varðar en því fer fjarri að svo sé.




Skoðun

Sjá meira


×