Skoðun

Ánægðir viðskiptavinir með lágmarkstilkostnaði

Guðný Benediktsdóttir skrifar
Straumlínustjórnun eða „Lean“ er aðferð sem beitt er við stjórnun fyrirtækja þar sem áherslan er á að hámarka ánægju viðskiptavina með lágmarks tilkostnaði og sóun.

Aðferðin á rætur sínar að rekja til Japans á níunda áratugnum þar sem vöruframleiðendur s.s. Toyota höfðu þróað ákveðna aðferð við stjórnun sem var að skila árangri sem eftir var tekið.

Þrátt fyrir að aðferðin hafi komið fyrst fram hjá framleiðslufyrirtækjum þykir hún eiga alveg eins við í þjónustufyrirtæki. Það að þekkja það sem hefur virði fyrir viðskiptavininn, hámarka virðið og framkvæma með lágmarks tilkostnaði og sóun hlýtur að geta átt við allan fyrirtækjarekstur.

Aðferðin byggist á því að líta á starfsemi fyrirtækis sem virðisstrauma. Virðisstraumur er samansafn aðgerða sem skipta má í þrjá flokka: aðgerðir sem skapa virði fyrir viðskiptavininn, aðgerðir sem skapa ekki virði en eru óhjákvæmilegar og aðgerðir sem skapa ekki virði og eru óþarfar.

Skilgreina þarf virðisstraumana og þær aðgerðir sem þeim tilheyra. Markvisst og reglulega er svo farið í gegn um aðgerðir / ferla hvers virðisstraums með það að markmiði að auka skilvirkni og koma í veg fyrir sóun á tíma, fjármunum og aðföngum. Þau fyrirtæki sem beita þessari aðferð við stjórnun hætta að einblína á ákveðna tækni, eignir eða svið, heldur leggja áherslu á vöruna/þjónustuna og fylgjast markvisst með virðisstraumum þvert í gegn um fyrirtækið.

Greint er hvað það er í raun sem er einhvers virði fyrir viðskiptavininn og áhersla lögð á það í framleiðslunni / þjónustunni. Þessi áhersla eykur ánægju viðskiptavina.

Með þátttöku í umbótastarfi geta starfsmenn haft áhrif á starfsumhverfi sitt og aukið þar með starfsánægju sína. Fyrirtæki sem beita þessari aðferðafræði við stjórnun geta því komist í ákjósanlega stöðu, bæði með ánægða viðskiptavini og ánægða starfsmenn.

Að ná valdi á straumlínustjórnun er ekki átaksverkefni heldur krefst hugarfarsbreytingar hjá öllum í fyrirtækinu. Leggja þarf áherslu á virði fyrir viðskiptavininn. Innleiða þarf menningu stöðugra umbóta þannig að sjálfsagt þyki að vera ávallt að bæta ferla og umhverfi með lágmarks sóun að markmiði. Verkfærin í boði eru af ýmsum toga s.s. Kanban, Kaizen, Gembawalks, 5S. Hvert fyrirtæki þarf að finna þau verkfæri sem henta því og raða saman í sinn verkfærakassa. Þegar fyrirtæki ákveður að „Lean“-væðast er það fyrst og fremst hugarfarsbreyting sem verið er að innleiða, aðferðir til að styðja við hana koma svo í kjölfarið.




Skoðun

Sjá meira


×