Viðskipti innlent

Leikhúsmógúllinn hefur hagnast um 3,5 milljarða frá hruni

ingvar haraldsson skrifar
Systkinin Óskar Eiríksson, framkvæmdastjóri Mogul Holding, og Signý Eiríksdóttir, verkefnisstjóri hjá fyrirtækinu.
Systkinin Óskar Eiríksson, framkvæmdastjóri Mogul Holding, og Signý Eiríksdóttir, verkefnisstjóri hjá fyrirtækinu. vísir/valli
Leikhúsfélagið Mogul Holding ehf., sem áður hét Leikhúsmógúllinn, hefur hagnast um 3,5 milljarða króna frá og með hrunárinu 2008. Félagið er fjölskyldufyrirtæki, stofnað utan um framleiðslu leiksýninga í Þýskalandi árið 2000 og á sýningarréttinn á Hellisbúanum og fleiri sýningum. Sýningar á vegum Mogul Holding hafa verið settar upp í 41 landi.

„Við erum eitt af stærri leikhúsframleiðslufyrirtækjum í heimi og af þeim sem eru að setja upp minni sýningar erum við langstærst og langútbreiddust,“ segir Óskar Eiríksson, framkvæmdastjóri Mogul Holding. Óskar á ásamt tveimur systrum sínum og föður sínum samtals 60 prósenta hlut í félaginu.

Fyrirtækið á þátt í uppsetningu á milli 2.500 og 5.000 leiksýninga á ári hverju og er með skrifstofur á Íslandi, í Sviss, Þýskalandi og Bandaríkjunum.

Óskar segir að Hellisbúann hafi reynst félaginu ábatasamastur. Þá hafi Þýskaland alla tíð verið stærsti markaður félagsins. „Gulleggið hefur verið Þýskalandsmarkaður sem varð til þess að við gátum stækkað,“ segir Óskar.

Mogul Holding hagnaðist um 170 milljónir króna í fyrra. Rekstrar­tekjur námu 970 milljónum króna og rekstrarhagnaður fyrir afborgun lána og tekjuskatts, nam 388 milljónum króna.

Árið 2013 hagnaðist félagið um 1,1 milljarð króna en það skýrðist að stærstum hluta af endurútreikningum lána sem lækkuðu lán félagsins um 778 milljónir króna.

Eignir Mogul Holdings nema 10,5 milljörðum króna, þar af er hugverkaréttur að leikritum bókfærður á 9,7 milljarða króna. Eigið fé félagsins nemur 5,8 milljörðum króna og skuldir 4,7 milljörðum króna.

Deilur í hlutahafahópnum

Deilur hafa staðið um talsverða hríð meðal hluthafa félagsins. Mango Tree BV, sem á 22 prósenta hlut í félaginu, hefur farið fram á innlausn síns hlutar og rekur nú dómsmál gegn Mogul Holdings vegna þessa fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Mango Tree hefur áður tapað málum fyrir dómstólum gegn félaginu. Mango Tree er í eigu sjóðsins Brú II, sem er að langstærstum hluta í eigu lífeyrissjóða og hefur verið í umsjón Thule Investments.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×