Körfubolti

Haukur Helgi skrifaði undir hjá Njarðvík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson.
Haukur Helgi Pálsson. Vísir/Valtýr Björn
Haukur Helgi Pálsson, einn besti leikmaður íslenska körfuboltalandsliðsins á Eurobasket í Berlín 2015 mun spila í Domino´s deild karla í vetur. Haukur Helgi skrifaði undir samning út tímabilið við Njarðvík á blaðamannafundi í Ljónagryfjunni í dag.

Þetta er gríðarlegur liðsstyrkur fyrir Friðrik Inga Rúnarsson og lærisveina hans í Njarðvík sem eru enn að glíma við áfallið að missa Bandaríkjamanninn Stefan Bonneau út með slitna hásin.

Hann verður annar Eurobasket-leikmaður Njarðvíkurliðsins því fyrir er fyrirliðinn Logi Gunnarsson.

Vísis sagði fyrst frá því að Haukur væri á leiðinni til Njarðvíkur á mánudagskvöldið en þjálfari Njarðvíkur staðfesti þá að félagið væri viðræðum við leikmanninn sem er nú genginn til liðs við liðið.

Haukur átti frábært Evrópumót með íslenska landsliðinu þar sem hann skoraði 12,8 stig í leik og var með fjórðu bestu þriggja stiga skotnýtinguna á mótinu (56 prósent).  Haukur hefur spilað 40 landsleiki og skorað í þeim 457 stig eða 11,4 stig að meðaltali í leik.

Haukur Helgi kemur til Njarðvíkur frá Mitteldeutscher BC í þýsku 1. deildinni þar sem hann fékk sex vikna samning eftir Evrópumótið. Haukur var með 7,4 stig og 2,8 fráköst að meðaltali á 19,3 mínútum í leik.

Þessi öflugi framherji spilaði á síðustu leiktíð með LF Basket í Svíþjóð undir stjórn Peters Öqvist, fyrrverandi landsliðsþjálfara, en hann hefur einnig spilað með hinum sterka Maryland-háskóla og á Spáni.

Haukur spilaði á Spáni með Basquet Manresa í A-deildinni og með CB Breogan í B-deildinni auk þess að reyna fyrir sér síðast vor hjá A-deildarliðinu Laboral Kutxa.

Haukur Helgi Pálsson er 23 ára framherji og uppalinn hjá Fjölni í Grafarvogi þar sem hann steig sín fyrstu skref með meistaraflokki tímabilið 2007-08 þá aðeins fimmtán ára gamall.

Haukur hefur ekki spilað á Íslandi síðan að hann lék með Fjölni í 1. deildinni veturinn 2008-09 en hann hjálpaði Grafarvogsliðinu að vinna sér sæti á ný í deild þeirra bestu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×