Skoðun

Í öðrum heimi í umferðinni

Gísli Níls Einarsson skrifar
Endalaust áreiti og truflun er daglegt brauð flestra. Í umferðinni er margt sem glepur hvort sem vegfarendur ganga, hjóla, aka eða ferðast með Strætó. Þar má fyrst nefna farsímana með allri sinni afþreyingu; nýjar færslur á Facebook, Snapchat eða Twitter, nýjustu fréttir af líðandi stundu eða skilaboð frá vinum og vandamönnum. Þá eru allmargir á ferð með heyrnartól í eyrunum að hlusta á tónlist eða útvarpið.

Þú gleymir þá ef til vill að ýta á bjölluna í Strætó og missir af stoppistöðinni þinni, gengur yfir götu án þess að gæta nógu vel að, heyrir ekki í bjöllu hjólreiðamannsins sem nálgast, ekur ekki strax af stað þegar græna ljósið birtist, sérð ekki litlu holuna á hjólreiðastígnum eða keyrir aftan á næstu bifreið þegar þú tékkar á nýjustu færslunni í farsímanum. Þetta getur ekki bara haft alvarlegar afleiðingar fyrir okkur heldur einnig aðra vegfarendur sem við völdum slysi.

Á Öryggisdögum Strætó bs. og VÍS er kapp lagt á að vegfarendur beini athygli sinni óskertri að umferðinni. Verum ekki andlega fjarverandi í umferðinni. Þannig má bæta umferðar­öryggið og auka líkurnar á að allir komist heilir heim. Verum vökul og verndum samborgara okkar um leið og okkur sjálf.




Skoðun

Sjá meira


×