Aðrir starfsmenn Mílu fá hins vegar ekki að kaupa í Símanum. Þeir eru einu starfsmenn innan Símasamstæðunnar sem fá ekki kauprétti fyrir allt að 600 þúsund krónur á ári á verðinu 2,5 krónur á hlut. Þeir geta hins vegar keypt hlut í Símanum á hlutabréfamarkaði en gengi Símans stóð í 3,49 krónum á hlut við lok dags í gær, 40 prósent hærra gengi en framkvæmdastjórinn keypti á.

Jón segir að Orri Hauksson, forstjóri Símans, hafi sagt að sér persónulega stæði til boða að kaupa hlut í Símanum í sumar sem hann hafi þegið. „Það er svo sem ekkert sem bannar mér að kaupa hlutabréf í fjarskiptafyrirtækjum. Það var fenginn óháður lögmaður til að meta það hvort þetta væri í lagi og það var mat allra að það ætti ekki að stangast á við neitt í þessari sátt,“ segir hann.
Jón segir kauprétti starfsmanna Símans og kaup hans og fleiri stjórnenda Símans á hlut í fyrirtækinu vera tvo óskylda atburði. „Við vissum ekkert hér um þetta valréttarkerfi þegar hitt var ákveðið,“ segir Jón og vísar þar til kaupa sinna á hlut í Símanum.
Heimildir Fréttablaðsins herma að talsverð óánægja sé meðal starfsmanna Mílu með þessa tilhögun. Haldinn var starfsmannafundur vegna málsins fyrir skömmu þar sem fram kom að til stæði að bæta starfsmönnunum þetta upp. Jón segir að ekki sé búið að ákveða með hvaða hætti það verði gert.
Jón bendir á að söluhömlur séu á hlutunum, í hans tilfelli til 1. mars 2016, og því hafi enginn hagnast á kaupunum í Símanum enn sem komið er. Verðið sem fékkst í almennu útboði hafi einnig verið mun hærra en búist hafi verið við. „Það reiknaði enginn með því að verðið yrði svona, allavega ekki af þeim sem ég hef heyrt í,“ segir Jón.
Mistök í skráningarlýsingu
Í skráningarlýsingu Símans kemur fram að Jón Ríkharð eigi rétt á að kaupa hlutabréf í Símanum fyrir samtals 1.800 þúsund krónur. Í svari Símans til Fréttablaðsins varðandi þetta kemur hins vegar fram að þetta hafi verið mistök. „Í sátt sem gerð var við Samkeppniseftirlitið er ákvæði sem kveður á um að séu laun og önnur starfskjör starfsmanna Mílu tengd við afkomu skuli tengingin aðeins miðast við afkomu og árangur Mílu. Frá þessu ákvæði var ekki vikið þegar valréttaráætlunin var sett. Hvorki framkvæmdastjóri né starfsmenn Mílu hafa því kauprétti að hlutabréfum í Símanum. Í skráningarlýsingunni er hins vegar ranglega tilgreint í töflu að framkvæmdastjóri Mílu hafi slíkan rétt og biðjumst við velvirðingar á því,“ segir í svarinu.