Handbolti

Vil fara í almennilega deild þegar ég fer út í atvinnumennsku

Tómas Þór Þórðarsson skrifar
Theodór hefur byrjað tímabilið af krafti og verið einn besti leikmaður ÍBV.
Theodór hefur byrjað tímabilið af krafti og verið einn besti leikmaður ÍBV. Vísir/Andri Marinó
Theodór Sigurbjörnsson, hornamaður bikarmeistara ÍBV í Olís-deild karla í handbolta, er, að öðrum ólöstuðum, besti leikmaður deildarinnar í fyrstu umferðum hennar.

Hann hefur farið algjörlega á kostum með Eyjaliðinu og skorað 52 mörk í fyrstu fimm leikjum liðsins eða ríflega tíu mörk í leik. Hann hefur bætt skotnýtingu sína mikið sem skilar sér augljóslega í fleiri mörkum og þá er hann að skora fleiri mörk að meðaltali í leik en áður á sínum ferli.

„Ég æfði alveg gríðarlega vel í sumar og það er að skila sér,“ segir Theodór við Fréttablaðið aðspurður hvers vegna hann getur ekki hætt að skora við upphaf móts.

„Ég er að fá sama skotfjöldann og í fyrra en er núna að bæta nýtinguna og það skilar sér í fleiri mörkum. Skotnýtingin var ekkert sem pirraði mig í fyrra en hún var eitthvað sem ég mátti bæta,“ segir hann.

Tröllatrú á liðinu

Eyjamenn komu upp í efstu deild á ný fyrir tveimur árum og hafa verið með læti síðan. Þeir urðu Íslandsmeistarar sem nýliðar í fyrra og bikarmeistarar fyrr á þessu ári.

Liðið styrkti sig vel fyrir tímabilið og var spáð Íslandsmeistaratitlinum. Það virtist vera að trufla ÍBV eitthvað í fyrstu leikjunum, en Eyjamenn töpuðu fyrir Reykjavíkurliðunum Val og Fram í byrjun móts.

„Spáin truflaði mig ekkert persónulega, en ég veit ekki með hina. Við töpuðum fyrsta leiknum bara á klaufaskap en sá síðari voru algjör vonbrigði,“ segir Theodór, en Eyjamenn eru síðan búnir að vinna þrjá leiki í röð.

„Síðan þá hafa tímasetningar á öllum okkar kerfum verið betri og varnarleikurinn alltaf sterkari. Hann skilar auðveldum hraðaupphlaupsmörkum. Ég hef gífurlega trú á þessu liði og við ættum að geta gert góða hluti. Hópurinn er ekki stór og við megum ekki við fleiri skakkaföllum, en liðið er mjög gott.“

Theodór í leik gegn ÍBV á síðasta tímabili.Vísir/Valli
Ekki út strax

Theodór hefur bætt sinn leik jafnt og þétt undanfarin ár og aukið meðalfjölda marka sinn á hverju ár síðan hann var í 1. deildinni. Hann er búinn að sanna sig sem algjör stjarna í Olís-deildinni en ákvað samt ekki að fara út í atvinnumennsku í vetur.

„Það var alveg áhugi en ég var staðráðinn að vera heima. Mér fannst ég þurfa annað tímabil til að fá stöðugleika í minn leik. Ég tók þessa ákvörðun eiginlega strax eftir síðasta tímabil þannig það var ekkert inn í myndinni að fara út,“ segir Theodór, sem vill taka stærra skref en margir aðrir sem hafa farið út á undanförnum árum þegar hann loks tekur skrefið.

„Ég vil fara í almennilega deild þegar ég fer út og vil geta staðið mig þar. Það er klárlega mitt markmið að komast í atvinnumennskuna,“ segir hann.

Hann segir engin lið hér heima hafa reynt að lokka sig frá Eyjunni. Það hefði líklega verið óþarfa símtal hjá liðunum. Maður sem býr á Hásteinsvegi í Vestmannaeyjum yfirgefur tæplega sína menn fyrir annað lið hér heima.

„Ég er svo mikill Eyjamaður að ég myndi örugglega ekki spila með öðru liði hér heima,“ segir Theodór.

Þessi mikla markavél skoraði 162 mörk í Olís-deildinni í fyrra. Það dugði ekki til markakóngstitilsins því Björgvin Hólmgeirsson skoraði 168 mörk fyrir ÍR.

Thedór skoraði 102 mörk á fyrsta tímabili sínu í efstu deild og varð þá þriðji markahæstur á eftir Sturlu Ásgeirssyni (136 mörk fyrir ÍR) og Bjarna Fritzsyni (131 mark fyrir Akureyri). Nú er komið að því að verða í efsta sæti.

„Auðvitað kitlar það að verða markakóngur en það er ekkert sem ég einblíni á. Ef ég skora mikið af mörkum hjálpar það ÍBV að vinna leiki og þannig helst þetta í hendur,“ segir Theodór Sigurbjörnsson.

Fyrstu fimm leikir Theodórs:

1. umferð: ÍBV - Valur 24-26 11 mörk í 13 skotum (3 víti)

2. umferð: ÍBV - Fram 24-25 11 mörk í 15 skotum (4 víti)

3. umferð: Haukar - ÍBV 19-21 9 mörk

4. umferð: Grótta - ÍBV 23-34 8 mörk í 12 skotum

5. umferð: ÍBV - ÍR 32-31 13 mörk í 16 skotum (4 víti)

Bætingin á milli ára:

2015/2016: 52 mörk í 5 leikjum - 10,4 mörk að meðaltali í leik

2014/2015: 162 mörk í 27 leikjum - sex mörk að meðaltali í leik

2013/2014 102 mörk í 20 leikjum - 5,1 mark að meðaltali í leik

2012/2013: 95 mörk í 21 leik - 4,5 mörk að meðaltali í leik




Fleiri fréttir

Sjá meira


×