Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Keflavík - ÍA 0-4 | Skagamenn sloppnir við fallið

Árni Jóhannsson á Nettóvellinum skrifar
Jón Vilhelm Ákason, leikmaður ÍA.
Jón Vilhelm Ákason, leikmaður ÍA. vísir/valli
Skagamenn tryggðu veru sína í efstu deild karla í fótbolta í dag með því að leggja andlausa og fallna Keflvíkinga í Keflavík í dag. Leikar enduðu 0-4 ÍA í vil.

Leikurinn var ekki mikið fyrir augað en mörk Skagagamanna yljuðu áhorfendum þó um hjartarætur. Garðar Gunnlaugsson (2), Þórður Þorsteinn Þórðarson og Hallur Flosason sáu um markaskorun þeirra í dag.

Fyrri hálfleikur hjá Keflavík og ÍA var nú ekki mikið fyrir augað ef frá eru tekin mörkin þrjú sem Skagamenn skoruðu. Mikið var um stöðubaráttu og þær sóknir sem ekki skiluðu mörkum skiluðu varla færum því lokasendingin klikkaði iðulega.

Fyrsta korterið í leiknum leið án þess að nokkuð gerðist en á 15. mín komst Hallur Flosason upp að endamörkum eftir gott spil gestanna og sendi hann boltann fyrir markið. Eins og svo oft áður í sumar þá skildu Keflvíkingar sóknarmann eftir í teig sínum. Garðar Gunnlaugsson lét ekki bjóða sér slíkt tvisvar og klippti boltann mjög vel í netið.

Tæpar níu mínútur liðu þangað til Skagamenn tvöfölduðu forskot sitt og var markið af dýrari gerðinni. Hornspyrna var tekin hátt upp í loftið og áttu heimamenn í töluverðum vandræðum með að hreinsa boltann frá. Þórður Þorsteinn Þórðarsonvar mætti á staðinn og lúðraði boltanum í hornið í fyrsta, óverjandi fyrir Sindra í markinu.

Sex mínútum síðar gerðu gestirnir nánast út um leikinn með því að skora þriðja markið gegn engu heimamanna. Ólafur Valur Valdimarsson sendi boltann fyrir og Hallur Flosason var mættur til að skalla boltann í netið. Það var mál manna að varnarmenn heimamanna hefðu getað betur ásamt því að Sindir hefði getað brugðist betur við í markinu.

Hálfleikurinn leið síðan án teljandi atvika og Skagamenn í ansi góðum málum.

Saga síðari hálfleiks var svipuð og í þeim fyrri, fótboltinn var ekki mikið fyrir augað og fá færi litu dagsins ljós. Ef Keflvíkingar ætluðu sér eitthvað úr leiknum þá þurftu þeir að ná marki á fyrstu mínútum hálfleiksins.

Það voru hinsvegar Skagamenn sem gerður alveg út um leikinn því strax á 50. mínútu leiksins þá slapp Garðar Gunnlaugsson í gegn eftir skalla innfyrir vörnina frá Ásgeiri Marteinssyni. Garðar þurfti að hrista Guðjón Árna Antoníusson af sér og náði síðan að leggja boltann framhjá Sindra Ólafssyni markverði Keflavíkur í netið.

Leikurinn leið síðan án teljandi atvika og Skagamenn innbyrtu þrjú stig. Þessi þrjú stig gerðu það að verkum, einnig út af öðrum úrslitum, að ÍA verður í Pepsi deildinni á næsta ári.

Keflvíkingar þurfa núna bara að klára næstu leiki og fara síðan að undirbúa lífið í fyrstu deildinni að ári. Ekkert í dag sýndi að þeir eiga heima í efstu deildinni í fótbolta.

Haukur Ingi Guðnason: Svekktur með andleysið

Þjálfari heimamanna var að vonum svekktur með úrslit leiksins í dag og var spurður hvort pressuleysið væri of mikið jafnvel fyrir leikmennina en Keflvíkingar eru nú þegar fallnir niður um deild.

„Það bregður oft til beggja vona þegar lið eru fallin fyrir leik, annaðhvort gerir pressuleysið að verkum að menn spila betur eða þá gerist það eins og í dag að það fer allt í vaskinn og við fáum á okkur fjögur mörk og sýnum andleysi. Ég er eiginlega svekktastur með það"“

Haukur var því næst spurður hvort að það væri ekki saga Keflvíkinga í sumar, það er andleysi í hópnum og slakur varnarleikur.

„Jú, þessi leikur súmmerar upp það sem hefur verið að hjá okkur í sumar. Við erum að fá á okkur mörk sem við ættum að geta komið í veg fyrir og höfum við reynt að gera það en ekki tekist.“

Haukur Ingi var því næst beðinn um að tala aðeins um næstu tvo leiki, möguleikann á því að ungir menn fengju sénsinn og framhaldið hjá þjálfurum liðsins með næsta ár í huga.

„Við erum að spila upp á stoltið og verðum að klára þessa leiki og það er góður möguleiki á að yngri menn fái tækifærið og fái að upplifa það að spila á móti fullorðnum karlmönnum í Pepsi deildinni. Það hefur aðeins verið rætt um næsta ár en ekkert er í hendi og verðum við að sjá til hvað gerist eftir að síðasti leikurinn er búinn.“

Gunnlaugur Jónsson: Sigur liðsheildarinnar

„Við komumst snemma í góða stöðu í 3-0 og eftir það var þetta spurning um að sýna fagmennsku, sem við gerðum“, sagði þjálfari Skagamanna eftir sigur sinna manna á Keflvíkingum í dag 0-4 og eftir að hafa verið spurður hvort hans menn hafi ekki bara gert nóg í dag til að vinna leikinn. Leikurinn var nefnilega ekki mikið fyrir augað.

Hann var spurður hvað ÍA hefði gert rétt í leiknum í dag til að ná í stigin sem þurfti til að tryggja veru Skagamanna í deildinni.

„Þetta var fyrst og fremst sigur liðsheildarinnar í dag og sýndum við góða liðsheild til að vinna leikinn og þar með tryggja veru okkar í Pepsi deildinni en það var markmiðið fyrir leikinn. Það hafðist þar sem Leiknir tapaði og ÍBV gerði jafntefli.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.