Leikjavísir

Stærsta breytingin á QuizUp frá upphafi: „Ég er ótrúlega spenntur“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Þorsteinn Baldur Friðriksson og félagar í Plain Vanilla bauð blaðamanni Vísis í heimsókn í gær. Þar fékk Vísir kynningu á þessari viðbót.
Þorsteinn Baldur Friðriksson og félagar í Plain Vanilla bauð blaðamanni Vísis í heimsókn í gær. Þar fékk Vísir kynningu á þessari viðbót. Vísir/valli
Í dag hefur nýrri viðbót í QuizUp verið hleypt af stokkunum og nefnist hún My QuizUp og á hún líklega eftir að vekja talsverða athygli, fjölga notendum mikið og síðast en ekki síst fjölga þeim tilefnum þar sem fólk spilar leikinn.

Breytingin felur í sér að nú munu allir notendur QuizUp geta búið til sínar eigin spurningar og spurningaflokka. Í þessu má auðvitað sjá endalausa möguleika fyrir fólk að búa til spurningasamfélög um mjög sérhæfð áhugamál, einnig persónulegri efni eins og t.d. spurningar um afmælisbörn í afmælum, um fyrirtæki og starfsfólk í starfsmannapartýum, um steggi og gæsir, um brúðhjón í brúðkaupum, um fólk í hópefli og margt fleira.

„Ég er ótrúlega spenntur fyrir þessari breytingu,“ segir Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi og framkvæmdarstjóri Plain Vanilla, sem sér um útgáfu QuizUp.

Um er að ræða stærstu breytingu sem gerð hefur verið á QuizUp frá upphafi. Þar sem QuizUp verður nú einnig tól fyrir sköpunargleði fólks, til viðbótar við að vera afþreying og samfélagsmiðill.

Svona lítur nýja viðmótið að hluta til út.
„Við höfum verið að vinna að þessari breytingu lengi og vonandi tekst vel til. Til að byrja með geta allir í heiminum spreytt sig á spurningum okkar notenda en síðar verður hægt að búa til lokuð próf sem t.d. hægt verður að senda á ákveðin hóp.“

Þorsteinn segir að núna verði hægt að búa til spurningar á öllum tungumálum í heiminum en fyrir breytinguna var QuizUp aðeins til á sjö tungumálum. Til að byrja með verður aðeins hægt að semja spurningar í borðtölvu eða fartölvu en snjalltækin eiga síðar eftir að fylgja þegar fram líða stundir. 

Stór hluti af alþjóðlegri kynningu á My QuizUp mun felast í því að Youtube-stjörnur með milljónir fylgjenda og ýmsir aðrir nýir miðlar munu búa til sína eigin spurningaflokka sem tengjast þeirra ritstjórnarlega fókus eða markhóp.

75 milljónir manna hafa skráð sig í QuizUp leikinn frá upphafi.


Tengdar fréttir

QuizUp hlaut Webby-verðlaunin

Sameiginleg auglýsingaherferð QuizUp og Google hlýtur Webby-verðlaunin í ár í flokknum auglýsingar og miðlun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×