Enski boltinn

Martial í stuði í sigri Man Utd | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Manchester United komst upp í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 2-3 sigri á Southampton á útivelli í dag.

Mörkin úr leiknum má sjá í spilaranum hér að ofan.

Heimamenn voru mun sterkari aðilinn framan af leik og Ítalinn Graziano Pellé kom þeim yfir á 13. mínútu þegar hann fylgdi eftir skoti Saido Mané sem David de Gea varði.

Pellé var svo hársbreidd frá því að koma Southampton í 2-0 þremur mínútum seinna þegar skot hans fór í stöng United-marksins.

Smám saman komust United-menn betur inn í leikinn og á 34. mínútu jafnaði Anthony Martial metin með laglegu marki.

Frakkinn rándýri var svo aftur á ferðinni á 50. mínútu þegar hann komst inn í hörmulega sendingu Maya Yoshida til baka á Maarten Stekelenburg og skoraði af yfirvegun. Þriðja mark Martial í tveimur deildarleikjum fyrir United en hann hefur farið afar vel af stað með liðinu.

Það var svo Juan Mata sem skoraði þriðja mark United á 68. mínútu. Spánverjinn fylgdi þá eftir skoti Memphis Depay sem small í stönginni.

Pellé hleypti spennu í leikinn þegar hann minnkaði muninn í 2-3 á 86. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf Mané en nær komust Dýrlingarnir ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×