Viðskipti innlent

Aðalmeðferð hafin í Marple-málinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, er einn af ákærðu í Marple-málinu.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, er einn af ákærðu í Marple-málinu. Vísir/GVA
Aðalmeðferð í svokölluðu Marple-máli hefst í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Um er að ræða þriðja málið þar sem fyrrverandi stjórnendur Kaupþings eru á sakamannabekk en tveir hinna ákærðu, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, sitja nú í fangelsi fyrir Al Thani-málið. Þá hlau Hreiðar Már einnig dóm í héraði í markaðsmisnotkunarmálinu svokallaða fyrr á árinu.

Sérstakur saksóknari ákærði fjóra í Marple-málinu, þau Hreiðar Má, Magnús, Guðnýju Örnu Sveinsdóttur, fyrrverandi fjármálastjóra bankans, og Skúla Þorvaldsson, eiganda félagsins Marple Holding og einn af stærstu viðskiptavinum Kaupþings fyrir hrun. Fjórmenningarnir eru ýmist ákærðir fyrir fjárdrátt, hlutdeild í fjárdrætti eða hylmingu.

Ákæran í málinu grundvallast á þremur ætluðum brotum. Í fyrsta lagi 3 milljarða króna millifærslu Kaupþings til félagsins Marple Holding í Lúxemborg hinn 19. desember 2007. Vegna hennar eru Hreiðar Már og Guðný Arna aðallega ákærð fyrir fjárdrátt og Magnús ákærður fyrir hlutdeild í broti þeirra. Þá er Skúli ákærður aðallega fyrir hylmingu með því að halda ólöglega þessum peningum og taka þannig þátt í auðgunarbroti.

Í öðru lagi er um að ræða aðra rúmlega þriggja milljarða króna millifærslu frá Kaupþingi til Marple Holding sem var frágengin hinn 1. júlí 2008. Hreiðar Már og Guðný eru einnig ákærð fyrir fjárdrátt vegna þessarar millifærslu, Magnús fyrir hlutdeild í fjárdrætti og Skúli fyrir hylmingu.

Í þriðja lagi er um að ræða kaup Kaupþings banka á skuldabréfum útgefin af bankanum sjálfum í sjö skuldabréfaflokkum með áföllnum vöxtum af Marple Holding samtals upp á 57,4 milljónir evra annars vegar og 45,3 milljónir dollara hins vegar. Var kaupverðið langt yfir markaðsverði samkvæmt ákærunni og olli Kaupþingi fjártjóni.Guðný Arna og Hreiðar Már eru ákærð fyrir umboðssvik vegna þess og Magnús fyrir hlutdeild í brotum þeirra.

Skúli er ákærður fyrir hylmingu í þessum lið ákærunnar fyrir að halda eftir ólögmætum ávinningi af hinum meintu brotum.

Í dag er áætlað að þrír sakborninga gefi skýrslu í málinu, þau Guðný, Hreiðar og Magnús. Áætlað er að aðalmeðferðin standi fram í næstu viku.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×