Viðskipti innlent

Fara mest í níu ár í fangelsi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson voru allir dæmdir í fangelsi í liðinni viku vegna Al Thani-málsins.
Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson voru allir dæmdir í fangelsi í liðinni viku vegna Al Thani-málsins. Vísir
„Yfirleitt geta menn ekki farið upp úr refsirammanum með hverju broti. Það þýðir að þó að framin séu 10-20 brot þá fara menn ekkert upp úr hámarkinu. Það er þó heimild í hegningarlögum að auka við refsinguna, og bæta við hana allt að helmingi hennar, eins og segir í ákvæðinu ef menn hafa lagt það í vana sinn að fremja brot. Þó er það svo að 9 ára fangelsisdómur allt í allt er það mesta sem sakborningar í þessum málum geta fengið. Þetta þýðir að ef heildarrefsing yrði til dæmis komin upp í 9 ár áður en síðasta málið yrði dæmt myndi ekkert bætast við þó viðkomandi yrði sakfelldur,“ segir Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá sérstökum saksóknara, aðspurður um hversu langan fangelsisdóm Kaupþingsmenn geta fengið í heildina en nokkur mál bíða þeirra í dómskerfinu.

Eins og kunnugt er voru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, Ólafur Ólafsson, einn stærsti eigandi Kauþings, og Magnús Guðmundsson, forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, dæmdir í fangelsi í Hæstarétti í liðinni viku fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun í Al Thani-málinu.

Sjá einnig: Þungur dómur yfir Hreiðari staðfestur

Endanleg niðurstaða í fyrsta lagi eftir tvö ár

Kaupþingstopparnir eru þó langt í frá lausir allra mála. Sérstakur saksóknari hefur ákært Hreiðar Má og Magnús í þremur öðrum málum sem tengjast viðskiptum Kaupþings fyrir hrun og Sigurður er ákærður í tveimur af þeim málum, en Ólafur hefur ekki verið ákærður í fleiri málum.

Björn segir að endanleg niðurstaða í þessum málum fáist í fyrsta lagi um áramótin 2016-2017.

„Greinargerðarfrestur í síðasta málinu, svokölluðu CLN-máli, er fram í október þannig að það verður í fyrsta lagi flutt í kringum næstu áramót og fer svo upp í Hæstarétt.“

Aðspurður hvort að fleiri mál séu til rannsóknar hjá embættinu á hendur þessum sömu mönnum segist Björn ekki vilja tjá sig um það.

Mánaðarlöng aðalmeðferð framundan

Næsta mál sem er á dagskrá dómstólanna snýr að umfangsmikilli markaðsmisnotkun á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 8. október 2008. Níu manns eru ákærðir í málinu, þar á meðal þremenningarnir sem fengu dóm á fimmtudaginn. Áætlað er að aðalmeðferðin taki mánuð en málið er á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. apríl til 22. maí.

Í ákæru segir að ákærðu hafi ýmist komið í veg fyrir eða hægt á lækkun á verði hlutabréfa í Kaupþingi og aukið seljanleika þeirra með kerfisbundnum og stórfelldum kaupum í krafti fjárhagslegs styrks bankans. Um 40% viðskipta með bréf Kaupþings í Kauphöll Íslands á þessu tímabili hafi því verið sýndarviðskipti.

Hreiðar, Magnús og Sigurður eru svo einnig ákærðir CLN-málinu en þar er þeim gefið að sök að hafa misnotað stöðu sína sem stjórnendur bankans í lánveitingum til nokkurra eignarhaldsfélaga sem voru í eigu vildarviðskiptavina bankans. Lánin voru svo notuð til að kaupa skuldatryggingar á Kaupþings banka, eða svokölluð Credit Linked Notes, með það fyrir augum að lækka skuldatryggingarálag bankans í aðdraganda bankahrunsins árið 2008.

Þriðja málið sem er svo fyrir dómstólum er Marple-málið en Hreiðar og Magnús eru ákærðir ásamt Guðnýju Örnu Sveinsdóttur, fyrrverandi fjármálastjóra bankans, og Skúla Þorvaldssyni, fjárfesti. Sú háttsemi sem ákærðu er gefið að sök miðaði að því að færa um 8 milljarða króna úr sjóðum Kaupþings til félagsins Marple í eigu Skúla Þorvaldssonar án þess að lögmætar viðskiptalegar ástæður lægju þar að baki.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×