Innlent

Fullyrðir að engum gögnum hafi verið eytt

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Forsvarsmenn Isavia sögðu í bréfi í febrúar að afritum hafi verið eytt og frumgögn hafi verið endursend.
Forsvarsmenn Isavia sögðu í bréfi í febrúar að afritum hafi verið eytt og frumgögn hafi verið endursend. Vísir/Vilhelm
Lögmaður Isavía segir að engum gögnum hafi verið eytt í tengslum við samkeppni fyrirtækisins á verslunarplássi á Keflavíkurflugvelli. Í úrskurði úrskurðarnefndar upplýsingamála kemur fram að gögnum hafi verið eytt.

Stefán Þórisson, lögmaður Isavia, fullyrti í viðtali í morgunþættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun að engum gögnum hafi verið eytt í tengslum við samkeppni um verslunarrými á Keflavíkurflugvelli.

„Það er einhver flökkusaga komin í gang og meðal annars komin inn í úrskurð úrskurðarnefndar upplýsingamála um að gögnum hafi verið eytt. Það er einfaldlega rangt þó að það standi þar,“ sagði hann.

Í umræddum úrskurði kemur hins vegar fram að í bréfi sem fyrirtækið sendi nefndinni í febrúar síðastliðnum komi fram að nokkrar af þeim tillögum sem fyrirtækinu barst vegna útboðsins hafi verið endursendar þátttakendum og afritum þeirra eytt úr skjalasafni fyrirtækisins.

Nefndin bendir á að það samræmist ekki lögum um opinber skjalasöfn en þar er kveðið á um að varðveita málsgögn þannig að þau séu aðgengileg. Samkvæmt úrskurðarnefndinni ná þessi lög yfir Isavia sem er opinbert hlutafélag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×