Innlent

Er þetta staðurinn með dularfulla torfbænum?

Kristján Már Unnarsson skrifar
Mörg ykkar rámar eflaust í frétt sem við birtum fyrir hálfu ári um gamla ljósmynd af torfbæ sem furðu erfiðlega gengur að staðsetja. Fréttastofan kannaði staðhætti við bæ einn á Norðurlandi sem þykir koma sterklega til greina. Bóndinn á bænum segir hins vegar næstum útilokað að þetta sé staðurinn.

Af hartnær fimmhundruð ljósmyndum á torfbæjarsetrinu að Austur-Meðalholtum við Selfoss er þetta sú sem Hannesi Lárussyni torfbæjasérfræðingi gengur verst að staðsetja. Þrátt fyrir ýmis áberandi kennileiti hefur engin ótvíræð ábending borist um hvaða bær þetta er.

Ljósmyndin af torfbænum. Hún gæti verið tekin á árabilinu 1890 til 1915.Ljósmyndari/Óþekktur.
Með ljósmyndina í farteskinu fórum við að Reynistað í Skagafirði en okkur þótti ýmislegt benda til að þar gæti verið staðurinn. Bæjarstæðið er á háum árbakka og fyrir neðan rennur Staðará, einnig nefnd Sæmundará, en í meðfylgjandi frétt Stöðvar 2 má átta sig betur á staðháttum.

Á gömlu myndinni má sjá mann standa við bæinn og við sendum mann upp til að meta hæð árbakkans og okkur virðist sem stærðarhlutföllin gætu passað. Á myndinni sést líka ljós ármöl, og hana sjáum við einnig á árbakkanum hér, og stærðin á steinunum virðist einnig svipuð. 

Takið svo eftir fjallsbrúninni vinstra megin og sérstaklega eftir stallinum í fjallinu. Nú eru að vísu komin tré á Reynistað, sem byrgja sýn, en þó má sjá glitta í fjallið Tindastól fyrir aftan í sömu sjónlínu og á ljósmyndinni og fjallsbrún hans virðist ekki ósvipuð. 

Stígur sem mótar fyrir í brekkunni við Reynistað gæti stemmt við stíg sem sést á gömlu myndinni. Sólarátt, sem sést af skuggum, rímar einnig.

Ef einhver ætti að þekkja bæjarstæðið og umhverfið væri það sennilega bóndinn á staðnum. Helgi Jóhann Sigurðsson bóndi hafði reyndar hafnað því í vetur að þetta væri Reynistaður en við fengum hann engu að síður til skoða með okkur umhverfið sem við töldum að gæti verið tökustaður ljósmyndarinnar.

Helgi Jóhann Sigurðsson, bóndi á Reynistað í Skagafirði.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
„Mér finnst það næstum því útilokað. Auðvitað getur maður ekkert sagt hvernig þetta var fyrir 130-140 árum. En miðað við gamla bæinn sem var hérna upp frá, og fleira, finnst mér þetta ekki passa,“ segir bóndinn á Reynistað. Þá segist hann aldrei hafa heyrt um að kartöflugarðar eða kálgarðar hafi verið í brekkunni, eins og sjást á gömlu myndinni.

Ánni var hins vegar breytt fyrir rúmum áratug með grjótvörn, að sögn Helga Jóhanns. Áður rann hún alveg upp við árbakkann en garðurinn var settur til að verja bakkann.  Hann segir að í gegnum tíðina hafi árfarvegurinn gengið fram og til baka. Þó séu til ljósmyndir frá því í kringum árið 1900 og þá sé áin fjær bakkanum. 

Og þá er það spurningin um hæðina hægra megin á myndinni. Getur hún verið Hegranes? 

„Jú, en þá þyrftirðu að standa allt annarsstaðar.“ 

-Þannig að mér tekst ekki að sannfæra þig um að þetta sé Reynistaður? 

„Nei, þú verður að koma með meiri sannanir til þess, það er alveg pottþétt,“ svarar Helgi Jóhann og hlær. 

Ætli við þurfum þá ekki að leita betur. 


Tengdar fréttir

Hvar á landinu var þessi bær?

Þetta er sú ráðgáta sem Hannesi Lárussyni á torfbæjarsetrinu við Selfoss gengur hvað erfiðast að fá svarað.

Ljósmyndin af Collingwood?

Ábendingar um torfbæjarmyndina halda áfram að berast. Engin þó enn þess eðlis að hægt sé að skera úr um hvar staðurinn er á landinu.

Torfbæirnir íslensku eru merkur byggingararfur

Torfbærinn er eitt merkasta framlag Íslendinga til heimsmenningarinnar, að mati Hannesar Lárussonar myndlistarmanns, sem opnað hefur menningarsetur helgað torfbænum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×