Viðskipti innlent

Creditinfo kaupir marokkóskt upplýsingafyrirtæki

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Reynir Grétarsson
Reynir Grétarsson vísir/vilhelm
Creditinfo Group hefur undirritað samning um kaup á upplýsingafyrirtækinu Experian Marocco. Seljandinn er Experian plc, sem er eitt stærsta fyrirtæki í heimi á sviði fjármálaupplýsinga. Experian Marocco er staðsett í Casablanca í Marokkó og nemur heildarfjárfestingin um 500 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Creditinfo.

Meðal helstu markmiða Creditinfo Group eru að auka umsvif okkar í Afríku. Þess vegna er það sérstakt ánægjuefni fyrir félagið að eignast starfsemi í Marokkó. Bæði vegna þess markaðar og vegna þess að þaðan er gott að þjónusta Vestur-Afríku. Við erum þegar með skrifstofur í fjórum löndum á því svæði,“ segir Kristinn Agnarsson, framkvæmdastjóri nýrra markaða hjá Creditinfo Group.

Þá segir Kristinn veltu Experian Marocco vera um 300 milljónir króna, en stefnt sé að því að auka hana hratt með því að innleiða kerfi Creditinfo og nýjar vörur og þjónustur.

Reynir Grétarsson, forstjóri og stærsti hluthafi í Creditinfo Group, segir þetta passa vel við stefnu fyrirtækisins til lengri tíma: „Þetta er akkúrat sá markaður sem við viljum vera á og hentar okkar starfsemi. Við viljum sérhæfa okkur og helst þannig að keppinautarnir vilji ekki vera á sama stað og við. Við stefnum enn á að vera í 50 löndum árið 2020 og erum á áætlun,“ segir Reynir.

Creditinfo, sem er íslenskt, er með skrifstofur í 20 löndum og hefur þeim fjölgað um fimm á þessu ári. Höfuðstöðvar Creditinfo eru í Reykjavík og eru starfsmenn þess um 300.


Tengdar fréttir

Creditinfo semur um nýtt verkefni í Afríku

Íslenska fyrirtækið Creditinfo hefur verið valið til að stýra miðlun fjárhagsupplýsinga í Vesturafríska myntbandalaginu. Átta þjóðir í Vestur-Afríku standa að bandalaginu en íbúar þess eru ríflega 100 milljónir.

Breytingar í yfirstjórn Creditinfo

Brynja Baldursdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Creditinfo Lánstrausts hf. Fráfarandi framkvæmdastjóri, Hákon Stefánsson, verður aðstoðarforstjóri Creditinfo Group hf. og stjórnarformaður Creditinfo Lánstrausts hf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×