Skoðun
Unnur Pétursdóttir Formaður Félags sjúkraþjálfara

Sjúkraþjálfarar og samkeppnin

Unnur Pétursdóttir skrifar

Nokkuð hefur verið rætt um möguleika þess að auka samkeppni í heilbrigðisþjónustu í þeim tilgangi að þrýsta á um samkeppnishæf laun til handa háskólamenntuðum starfsstéttum á Landspítalanum.

Sjúkraþjálfarar eru ein þeirra stétta sem starfa á Landspítalanum. Störf þeirra fara ekki hátt en eru mikilvægur hlekkur í langri keðju verka sem þarf að vinna svo árangur náist af meðferð sjúklinga. Störf sjúkraþjálfara á bráðasjúkrahúsi krefjast mikillar sérhæfingar.

Rétt um 15% sjúkraþjálfara landsins starfa á Landspítalanum. Sjúkraþjálfarar hafa allt frá árinu 1973 haft verktakasamning við Sjúkratryggingar Íslands auk þess sem stór hluti starfar á öldrunarheimilum, hjá íþróttafélögum, stoðtækjafyrirtækjum og víðar. Þar með er veruleg samkeppni um starfskrafta sjúkraþjálfara sem ætti, samkvæmt umræðunni, að endurspeglast í samkeppnishæfum launum sjúkraþjálfara starfandi á Landspítalanum. En er það svo?

Napur raunveruleikinn er sá að á Landspítalanum, flaggskipi íslenskrar heilbrigðisþjónustu, háskólasjúkrahúsi landsins, starfa sjúkraþjálfarar eftir daprasta samningi sjúkraþjálfara og svo hefur verið um árabil. Samkeppnin er fólgin í því að ungir og upprennandi sjúkraþjálfarar koma inn með áhuga og eldmóði, fá nokkra launaseðla og svolitla starfsreynslu og hverfa svo á braut. Öflugur hópur reyndra sjúkraþjálfara með mikla sérhæfingu halda starfsemi endurhæfingar uppi á launum sem eru skammarleg. Starfsaldur þeirra er orðinn hár og innan fárra ára fara þeir fyrstu að fara á eftirlaun. Hverjir fást til að taka við þekkingu þeirra og reynslu?

Samkeppni hefur ekki verið töfralausn að bættum kjörum sjúkraþjálfara á Landspítalanum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.