Innlent

Kári Hólmar í doktorsnám við Harvard

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Doktorsverkefni Kára Hólmars verður á sviði mannréttindareglna.
Doktorsverkefni Kára Hólmars verður á sviði mannréttindareglna. vísir
Kári Hómar Ragnarsson, einn eiganda lögmannsstofunnar Réttar, var að ljúka meistaragráðu í lögfræði frá hinum virta Harvard-háskóla. Þá fékk hann á dögunum inngöngu í doktorsnám í lögfræði við skólann.

Samkeppni um inngöngu í námið er gríðarlega hörð en einungis níu nemendur frá flestum heimshornum voru teknir inn að þessu sinni. Það felst því mikill heiður og viðurkenning á frábærum árangri í því hljóta inngöngu.

Doktorsverkefni Kára verður á sviði mannréttindareglna en það ber vinnuheitið „Félagsleg réttindi og nýfrjálshyggja eftir fjármálakreppuna,“ er fram kemur á heimasíðu Réttar

„Verkefnið mun m.a. leita svara við því hvaða áhrif vernd félagslegra mannréttinda, svo sem réttarins til félagslegs öryggis og heilsu, höfðu í aðdraganda og við úrlausn fjármálakreppunnar. Sér í lagi er rannsóknarefnið hvort og þá hvernig slík mannréttindi geta takmarkað áhrif nýfrjálshyggju við val á tækum leiðum til úrlausnar efnahagserfiðleika,” eins og þar segir.

Íslendingar hafa áður gerst svo frægir að eiga fulltrúa í doktorsnámi við Harvard en Guðmundur S. Alfreðsson lauk námi frá deildinni árið 1982. Doktorsverkefni hans fjallaði um sjálfsákvörðunarrétt og lagalega stöðu Grænlands. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×