Innlent

Engin regla á tryggingamálum dagforeldra

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Engin regla er á tryggingarmálum barna hjá dagforeldrum. Flest sveitarfélög fara þó fram á einhvers konar slysatryggingar. Formaður Félags dagforeldra í Reykjavík segir foreldrar þurfa að kynna sér  tryggingamálin vel áður en börn eru sett í vistun. 

Í vikunni sögðum við frá því að foreldrar tveggja ára gamallar telpu á Selfossi væru afar ósátt við þær tryggingar sem dagforeldrar í sveitarfélaginu Árborg eru með. Barn þeirra varð fyrir slysi hjá dagforeldri í febrúar á þessu ári þegar pottur féll af hellu og sjóðandi heitt vatn helltist yfir barnið sem hlaut annars stigs bruna. Móðirin segir tryggingar dagforeldra lélegar, en barnið fékk ekki bætur vegna slyssins þar sem trygging dagforeldra hennar tryggði aðeins örorku eða dauða.

Það er misjafnt á milli sveitarfélaga hvers konar tryggingar dagforeldrar þurfa að hafa til að geta starfað sem slíkir. Oftast er þó farið fram á slysatryggingu. Í Reykjavík setur borgin sem skilyrði að dagforeldri  kaupi slysatryggingu vegna barnanna innan mánaðar frá því leyfi var veitt og framvísa staðfestingu þar að lútandi til umsjónaraðila.

Sigrún Edda Löve er formaður Barnsins, félags dagforeldra í Reykjavík. Hún segir að þó að farið sé fram á slysatryggingu sé það ekki skilgreint nánar. Slysatryggingarnar geta því verið af ýmsum toga. 

„Skilyrði til leyfisveitingar er að dagforeldrar kaupi slysatryggingu. En það er ekki tiltekið hvernig slysatrygging það er,“ segir Sigrún. 

Sigrún segir að misjafnt sé eftir dagforeldrum hvort þau séu með einhverskonar aukatryggingar. Félagsmenn Barnsins séu til dæmis tryggðir aukalega við slysatrygginguna. Því sé mikilvægt að foreldrar kynni sér tryggningmál vandlega áður en barnið fer í vistun til dagforeldra. 

„Ég mælist til þess að fólk kynni sér vel innihald trygginga hjá dagforeldrum. Og ekki bara hjá dagforeldrum heldur leikskólum og grunnskólum líka. Þetta er jú það dýrmætasta sem við eigum og við viljum að þau séu vel tryggð,“ segir hún. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×