Viðskipti innlent

Arnarnesvegur lengdur á næstu 15 mánuðum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Lægsta boð sem Vegagerðin fékk í gerð Arnarnesvegar reyndist sextíu milljónum króna yfir kostnaðaráætlun og raunar var ekkert tilboð undir áætlun í fjórum útboðverkum sem opnuð voru í dag.

Framlenging Arnarnesvegar er með stærri útboðsverkum um árabil og ætlað að greiða fyrir umferð í austurbyggðum Kópavogs en vegurinn á að vera tilbúinn eftir rúmt ár, fyrir 1. september 2016. Síðar mun hann tengjast Breiðholtsbraut og verða lykiltenging milli úthverfa á Reykjavíkursvæðinu.

Vegarkaflinn verður lagður milli Reykjanesbrautar og Fífuhvammsvegar í austanverðum Kópavogi.
Það var hins vegar fámennt við tilboðsopnun hjá Vegagerðinni en lægsta boð barst frá Suðurverki og Loftorku, upp á 769 milljónir króna, ríflega 60 milljónum yfir kostnaðaráætlun. Aðeins bárust þrjú tilboð, hin tvö voru frá Íslenskum aðalverktökum og The Istak-Aarsleff í Danmörku.

Jónas Snæbjörnsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðar, segir í viðtali í fréttum Stöðvar 2 að hann hefði talið að Vegagerðin fengið 12 til 15 tilboð í verk sem þetta fyrir 6-8 árum síðan. Þetta lýsi deifð á verktakamarkaði.

Vegagerðin opnaði tilboð í fjögur verk í dag og þar vakti athygli annarsvegar hversu fá tilboð bárust og hins vegar að ekkert einasta þeirra var undir kostnaðaráætlun. Í dýpkun Hornafjarðarhafnar barst eitt tilboð, frá Björgun, hátt yfir kostnaðaráætlun, í gerð Hólavegur í Eyjafirði einnig aðeins eitt boð, frá G. Hjálmarssyni, einnig vel yfir kostnaðaráætlun og tvö boð í efnisvinnslu á Norðurlandi vestra reyndust bæði yfir.

Jónas Snæbjörnsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Jónas Snæbjörnsson telur þetta afleiðingu af miklum samdrætti. Menn hafi þurft að sækja til útlanda þar sem fá verkefni hafi verið hérlendis. Fyrirtækjafjöldinn hafi dregist saman.


Tengdar fréttir

Meira malbikað frá Mývatni á Kópasker

Framkvæmdir við Dettifossveg, Kjósarskarðsveg og Uxahryggjaveg verða boðnar út á næstu vikum vegna 1.800 milljóna króna innspýtingar sem ríkisstjórnin samþykkti í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×