Innlent

Langt í land áður en kjarasamningur er á borðinu

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Sigurður Bessason formaður Eflingar og talsmaður Flóabandalagsins.
Sigurður Bessason formaður Eflingar og talsmaður Flóabandalagsins.
Töluvert langt er í land áður en kjarasamningar nást á milli Flóabandalagsins og Samtaka atvinnulífsins. Þetta segir formaður Eflingar sem er hluti af Flóabandalaginu.

Flóabandalagið og VR funduðu með samninganefnd SA í morgun. Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, sagði eftir fundinn að hreyfing væri komin á málin.

„Það er í sjálfu sér bara ánægjuefni að menn skuli vera sestir niður og taka þessa umræðu en ég held að menn eigi töluvert langt í land áður en að menn hafa hér einhvern mótaðan kjarasamning á borðinu. Þetta eru eingöngu fyrstu skref sem að menn eru að taka,“ segir Sigurður Bessason formaður Eflingar.

Hann segir Flóabandalagið nú vera að reikna þær hugmyndir sem að SA lagði fram á fundinum í morgun út frá sínum forsendum. Þangað til að því sé lokið geti hann lítið tjáð sig um þær. Næsti samningafundur verður í Karphúsinu í fyrramáli. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×