Viðskipti innlent

Hagnaður Arion fimmfaldast á milli ára

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Afkoma Arion á fyrsta fjórðungi markast af óreglulegum liðum. En Höskuldur Ólafsson segir að regluleg starfsemi hafi einnig skilað góðri afkomu.
Afkoma Arion á fyrsta fjórðungi markast af óreglulegum liðum. En Höskuldur Ólafsson segir að regluleg starfsemi hafi einnig skilað góðri afkomu.
Hagnaður Arion banka á fyrstu þremur mánuðum ársins nam 14,9 milljörðum króna, en var 2,9 milljarðar á sama tíma í fyrra. Í afkomutilkynningu segir að hagnaðurinn markist mjög mikið af óreglulegum liðum.  Þar hafa mest áhrif einskiptisatburðir eins og skráning og sala bankans á hlutum í fasteignafélaginu Reitum og alþjóðlega drykkjaframleiðandanum Refresco Gerber.

Höskuldur Ólafsson, forstjóri Arion, segir að regluleg starfsemi bankans hafi líka gengið vel. „Arðsemi reglulegrar starfsemi er tæplega 10% á tímabilinu. Við höldum áfram að vinna að því að styrkja grunnrekstur bankans. Við höfum þar lagt mikla áherslu á að auka hlutdeild þóknanatekna í heildartekjum bankans og jukust þær um 19% miðað við sama tímabil fyrir ári. Af þóknanatekjum bankans koma rúm 80% frá fyrirtækjum en tæp 20% úr þjónustu við einstaklinga í viðskiptabankanum,“ segir Höskuldur.

Arðsemi eigin fjár bankans var 35,1 prósent á fjórðungnum samanborið við 7,8 prósent á sama tímabili árið 2014. Hagnaður af reglulegri starfsemi á tímabilinu nam 4,0 milljörðum króna samanborið við 1,7 milljarða á sama tímabili 2014. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi nam 9,8 prósent á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 4,6 prósent á sama tímabili 2014. Heildareignir námu 1.004,3 milljörðum króna samanborið við 933,7 milljarða króna í árslok 2014.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×