Innlent

Skúli á Subway hafði betur í Hæstarétti vegna kaupa á Ferguson-dráttarvél

Birgir Olgeirsson skrifar
Skúli Gunnar Sigfússon, eigandi Subway.
Skúli Gunnar Sigfússon, eigandi Subway. vísir/gva
Hæstiréttur Íslands hefur dæmt Hólsfell ehf. til að endurgreiða Skúla Gunnari Sigfússyni, eiganda Subway á Íslandi, kaupverð fyrir dráttarvél af tegundinni MasseyFerguson.

Skúli hafði keypt dráttarvélina, árgerð 1997, og flutningavagn af Hólsfelli ehf. en hann höfðaði mál gegn fyrirtækinu og krafðist riftunar á kaupsamningum vegna galla sem hann taldi vera á dráttarvélinni. Skúli hafði aflað matsgerðar dómkvadds manns, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að dráttarvélin hefði verið haldin verulegum ágöllum sem ekki hefðu verið sýnilegir venjulegum kaupanda.

Í dómi Héraðsdóms Vesturlands var talið að Skúli hefði vanrækt skoðunarskyldu sína við kaupin, enda hefði hann mátt sjá að vélin væri ekki í því ástandi sem ætla hefði mátt af auglýsingu Hólsfells ehf. Var fyrirtækið því sýknað af kröfum Skúla í héraði en Hæstiréttur komst hins vegar að gagnstæðri niðurstöðu og staðfesti riftun Skúla á kaupsamningnum.

Í dómi hans kom fram að þrátt fyrir að Skúli hefði látið undir höfuð leggjast að skoða dráttarvélina nákvæmlega hefði hann mátt treysta því sem fram kom í auglýsingu Hólsfells ehf. um ástand vélarinnar og ekki þurft að staðreyna það með skoðun vélarinnar samkvæmt lögum um lausafjárkaup.

Hann gæti því borið fyrir sig þá galla sem vélin var haldin og ekki voru augljósir honum sem kaupanda, en hann bjó ekki yfir sérþekkingu á slíkum vélum. Var riftun Skúla því tekin til greina og Hólsfelli gert að endurgreiða honum kaupverðið, samtals 2,2 milljónir króna auk einnar milljónar í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×