Innlent

Hæstiréttur staðfesti forsjársviptingu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/GVA
Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjaness þar sem kona var svipt forsjá yfir þremur börnum sínum. Dómurinn segir að önnur og vægari úrræði hafi verið fullreynd áður en krafan um forsjársviptingu hafi verið lögð fram.

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness kemur fram að börnin þrjú hafi verið tekin af konunni á grundvelli a. og d. liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Þar segir að Barnaverndarnefnd sé heimilt að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar, annar þeirra eða báðir, skuli sviptir forsjá ef hún telur:

a. að daglegri umönnun uppeldi eða samskiptum foreldra og barns sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska.

d. fullvíst að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar eru augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana, greindarskorts eða að breytni foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða.

Þá segir í dómnum að konan væri óhæf til að fara með forsjá barnanna og sinna forsjárskyldum sínum gagnvart þeim. Sú niðurstaða var byggð á á forsjárhæfnismati og undirmatsgerð sálfræðinga. Konan fékk tvo sálfræðinga til að gera yfirmatsgerð eftir dóm héraðsdóms, en Hæstiréttur segir niðurstöður þeirra samræmast fyrri niðurstöðum um að konan væri ófær um að fara með forsjá barnanna.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti var felldur niður og allur kostnaður konunnar greiðist úr ríkissjóði. Dóminn má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×