Innlent

Ætlar ekki að leyfa kvíðanum að stjórna lífi sínu

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Saga Matthildur Árnadóttir vildi ekki leyfa kvíðaröskuninni sem hún hefur glímt við frá því hún var barn að stjórna sínu lífi. Hún fór því algjörlega út fyrir þægindarammann og gerði eitthvað sem henni fannst áður nær óhugsandi að gera. Hún steig á svið og söng og heillaði alla upp úr skónum. Nú í dag nýtir hún sönginn til að vinna bug á kvíðaröskuninni og hvetur þá sem þjást af því sama að láta vaða.

„Þegar þú syngur fyrir fólk þá gefurðu svo mikið af þér. Mér fannst svo rosalega erfitt að opna mig fyrir því líka og var rosalega stressuð alltaf,“ sagði Saga sem ræddi málið í Íslandi í dag. Hún tók þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna í síðasta mánuði og hafnaði þar í þriðja sæti ásamt því að sigra í símakosningunni. Fyrir keppnina vissu þó fáir hver hún var enda segist hún hafa læðst með fram veggjum í FG fram að því.

Kvíðaköstin dagleg

„Ég fékk kvíðakast nánast daglega bara við að fara í skólann. Ég þorði aldrei að tala við neinn og þekkti engan því það fóru allir vinir mínir í MH. Ég sat bara inni á bókasafni, ein úti í horni að hlusta á tónlist í símanum mínum,“ segir hún.

Hún segir að erfitt hafi verið að taka skrefið að skrá sig. Enn erfiðara hafi verið að stíga á svið og ætlaði að hætta við á síðustu stundu. Hún hafi þó pínt sig áfram og leyfði kvíðaröskuninni ekki að hafa betur. „Ég sat inni í salnum og lá frammi á stólnum því ég var svo stressuð. Þegar ég var komin upp á svið og átti að byrja þá lokaði ég augunum og byrjaði.“

Stöðug vinna

Saga segist staðráðin í því að vinna bug á kvíðanum. Hún er nú í meðferð hjá sálfræðingi sem að hennar sögn hefur hjálpað henni mikið. „Þetta er ekki eitthvað sem fer. Þú þarft að vinna í þessu á hverjum einasta degi en auðvitað fer aldrei alveg,“ segir hún en viðtalið við hana í heild má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×