Innlent

Lokaverkefni nema Listaháskólans eyðilagt

Samúel Karl Ólason skrifar
„Það hefur verið mjög erfitt að skemma þetta,“ segir Hulda Einarsdóttir.
„Það hefur verið mjög erfitt að skemma þetta,“ segir Hulda Einarsdóttir.
Óprúttnir aðilar eyðilögðu listaverk þriggja kvenna í Öskjuhlíðinni í nótt. Listaverkið var eitt af fimm sem komið hafði verið fyrir á svæðinu, en þau voru lokaverkefni arkitektanema á fyrsta ári Listaháskólans.

Hulda Einarsdóttir segir listaverkið vera gjörónýtt. Þegar hún skoðaði það í gær var það hins vegar í heilu lagi og ekkert af hinum listaverkunum varð fyrir skemmdum. Listaverkið var fjögurra metra langt og tveir metrar á hæð.

„Það hefur verið mjög erfitt að skemma þetta,“ segir Hulda í samtali við Vísi. „Það var allavega mjög erfitt að setja þetta saman.“ Listaverk þeirra var úr viði sem þær fengu gefins frá Límtré. Að sýningunni lokinni átti að setja verkið upp í Hafnarfirði.

Hulda og tvær vinkonur hennar báru spýturnar, alls um 500 kíló á sýningarsvæðið og hún segir að ómögulegt sé að setja það saman aftur.

„Nú er þetta bara allt ónýtt. Það er eins og það hafi verið hjólað á þessu og hoppað á því. Svo er búið að negla í það nagla. Það er eins og einhver hafi komið aftur með nagla og hamar. Eins og einhver hafi séð það og komið aftur til þess að skemma það.“

Sýningin hófst á fimmtudaginn og líkur á þriðjudaginn, en þó voru kennarar búnir að fara yfir verkið.

Verkið var fjórir metrar að lengd og tveir á hæð. Hulda segir mikla vinnu hafa farið í að setja það saman.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×