Fótbolti

Strákarnir standa í stað á FIFA-listanum

vísir/vilhelm
Nýr styrkleikalisti FIFA var gefinn út í morgun og staða Íslands á listanum er áfram sterk.

Ísland er í 38. sæti listans rétt eins og í síðasta mánuði. Ísland er einu sæti fyrir ofan Svíþjóð og í næsta sæti á eftir Grænhöfðaeyjum.

Þjóðverjar eru á toppnum og Argentína kemur þar á eftir. Belgar eru í þriðja sæti og Kólumbía er í því fjórða.

Brasilía þarf að gera sér fimmta sætið að góðu um þessar mundir og Holland er í því sjötta. Ronaldo og félagar í Portúgal eru svo í sjöunda sæti. Danir eru í fyrsta sæti af Norðurlandaþjóðunum eða í 29. sæti.

Aron Jóhannsson og félagar hans í bandaríska landsliðinu eru í 28. sæti. Lið Anguilla er á botni listans og Cook eyjar eru í sætinu þar fyrir ofan.

Engin hreyfing er á liðunum í efstu sautján sætunum enda var ekki verið að spila í Evrópu í síðasta mánuði. Þar sem listinn nær yfir ákveðinn tíma þá detta einhverjir leikir út í hverjum mánuði og það getur haft áhrif á stöðu liðanna. Rússar til að mynda taka stökk upp um fimm sæti á meðan flest lið Evrópu standa í stað.

Ísland spilaði síðast 31. mars gegn Eistum og gerði þá 1-1 jafntefli. Næsti leikur íslenska landsliðsins er leikurinn mikilvægi gegn Tékkum sem fer fram á Laugardalsvelli þann 12. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×