Innlent

Ábyrgð okkar allra að ganga vel um Seljavallalaug

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Seljavallalaug.
Frá Seljavallalaug. Mynd/Páll Andrésson
Eigendur Seljavallalaugar segja fjölda þeirra sem sækja laugina hafa aukist gríðarlega á síðustu árum og oft sé umgengni ábótavant. Ungmennafélagið Eyfellingur fagnar þó áhuga fólks á að skoða Seljavallalaug en, stjórn félagsins, segir það á ábyrgð okkar allra að ganga vel um og skilja ekkert eftir við þessa perlu.

„Við hörmum það ekki að fólk sé að koma og skoða. Þetta er sérstakt, en eins og aðrir staðir á Íslandi þolir hann ekki alla þessa umgengni,“ segir Helga Haraldsdóttir, ritari stjórnar Ungmennafélagsins Eyfellingur. Ungmennafélagið á Seljavallalaug.

Hún segir aukninguna sem nefnd er í ályktun frá stjórninni fylgja mikilli umfjöllun í ferðatímaritum og handbókum undanfarin ár. „Það er gífurlegur fjöldi fólks sem fer þarna bæði á eigin vegum og í skipulögðum hópferðum.“

Sjá einnig: Eins og heimilislausir hafi haldið til í Seljavallalaug.

Helga segir að aldrei hafi staðið til að vera með starfsemi við laugina og að rukka inn á svæðið.

„Enda stenst laugin engan veginn reglugerðir ef að það ætti að reka þarna starfsemi. Það þyrfti í rauninni að raska henni töluvert ef það ætti að vera. Sem að eigendur hafa engan áhuga á. Við viljum bara varðveita þessar minjar og höfum gert það.“

„Ungmennafélagið fagnar áhuga fólks á að skoða Seljavallalaug sem er einstök perla og það er á ábyrgð okkar allra að ganga vel um og skilja ekkert eftir,“ segir í ályktun Ungmennafélagsins.

Ályktun Ungmennafélagsins Eyfellingur í heild sinni:

Seljavallalaug sem er í eigu ungmennafélagsins Eyfellings er ekki opinn baðstaður og þar er engin starfsemi. Lauginni hefur verið viðhaldið í gegnum tíðina af ungmennafélaginu og sjálfboðaliðum. Farið hefur verið reglulega á vegum ungmennafélagsins yfir sumartímann og hugað að þrifum og viðhaldi á lauginni. Fjöldi þeirra sem sækja laugina heim hefur aukist gríðarlega síðustu ár og umgengni oft ábótavant. Ungmennafélagið fagnar áhuga fólks á að skoða Seljavallalaug sem er einstök perla og það er á ábyrgð okkar allra að ganga vel um og skilja ekkert eftir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×