Körfubolti

„Nánast engar líkur“ að Dempsey spili í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Myron Dempsey í leik með Tindastóli gegn Haukum í undanúrslitunum.
Myron Dempsey í leik með Tindastóli gegn Haukum í undanúrslitunum. Vísir/Auðunn
„Darrell Flake verður með í kvöld en við gerum ekki ráð fyrir Myron [Dempsey].“

Þetta segir Kári Marísson, aðstoðarþjálfari Tindastóls, fyrir leikinn gegn KR í lokaúrslitum Domino's-deild karla í kvöld.

„Ég hef ekkert heyrt síðan í gærkvöldi reyndar en þá var hann ekki búinn að jafna sig og nánast engar líkur á að hann myndi ná leiknum. Ég geri ekki ráð fyrir að það hefur breyst.“

Fram kom í Morgunblaðinu í dag að Dempsey sé með bólginn vöðva við augað innanvert sem geri það að verkum að hann geti ekki opnað augað.

„Það er alltaf spurning hvort maður eigi að taka áhættu með hálfan mann þegar vonir standa til þess að við getum fengið hann 100 prósent inn í næsta leik,“ bætti Kári við en þriðji leikur liðanna fer fram í DHL-höllinni á sunnudagskvöld.

„Við erum því frekar að stefna að því að hann nái þeim leik.“

KR er með 1-0 forystu í rimmunni eftir öruggan sigur í fyrsta leik liðanna á mánudagskvöldið. Þá saknaði Tindastóll Dempsey sárlega, ekki síst í frákastabaráttunni sem KR vann með yfirburðum.

Leikur liðanna hefst klukkan 19.15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport, sem og í beinni textalýsingu hér á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×