Skoðun

Betri Landspítali á betri stað

Guðjón Sigurbjartsson skrifar
Hringbrautin hentar ekki fyrir nýja Landspítalann. Forstjóri Landspítalans hefur sagt að hann hefði valið annan stað, meiri hluti lækna sem og forsætisráðherra landsins telja rétt að skoða málið upp á nýtt vegna breyttra forsendna og það gera flestir sem kynna sér málið.

Frá 2002 hefur hugmyndin verið að sameina við gamla spítalann á Hringbraut þá spítalastarfsemi sem nú er í Landspítalanum Fossvogi, Grensás, Klepp og fleiri stöðum, alls um fimmtán.  Kostir staðsetningarinnar við Hringbraut hafa verið taldir: 1) nálægð við miðborgina, 2) nálægð við Háskólann, 3) nýta má gömlu byggingarnar og byggja í áföngum, 4) nálægð við flugvöllinn og komandi samgöngumiðstöð.   En það er fleira sem skiptir máli í þessu sambandi.  

Gríðarlegur ávinningur af betri staðsetningu

Þungamiðja byggðar á Höfuðborgarsvæðinu er 3 til 4 km austan við Hringbrautarlóðina. Ferðir starfsmanna, nema, sjúklinga og aðstandenda til og frá spítalanum eru að jafnaði um 9500 á sólarhring eða 3,5 milljónir á ári. Ef meðalferðalengd styttist um 3 km sparast um 1,5 milljarður króna á ári.  Það skiptir stundum sköpum að komast fljótt á sjúkrahús, betri staðsetning mun bjarga mannslífum.

Nálægðin við Reykjavíkurflugvelli takmarkar hæð spítalans og byggja þarf dreift.  Lengri ferðir milli deilda sóa dýrmætum tíma, lyftur flýta för. Ef tímasóun vegna ferða er 2% er árlegur rekstrarkostnaður um 1 milljarði króna á ári hærri en ella. Besta staðsetning sparar þannig 2,5 milljarða króna á ári sem gerir 100 milljarða á 40 árum, sem er hærri upphæð en áætlað er að nýr spítali kosti.

Nálægð við Háskólann skiptir litlu því kennsluaðstaða verður í nýja spítalanum.  Nýting gömlu bygginganna við Hringbraut sparar lítið því endurgerð kostar álíka mikið og að byggja nýtt.  

Vogarnir.
Besta staðsetning

Nýja byggingarsvæðið við ósa Elliðaánna, Vogabyggð, er nálægt þungamiðju byggðarinnar og það er Landspítalann í Fossvogi líka.

Vegtengingar við Vogabyggð eru mun betri en við Fossvoginn því gatnamót Miklubrautar og Sæbrautar eru stutt frá og tilvonandi Sundabraut kemur skammt fyrir norðan með góðar tengingar út úr borginni. Fjölmenn íbúðahverfi eru nálæg.  Þessi staðsetning hentar því spítalanum betur en Fossvogurinn.

Landsbankinn á margar Vogabyggðarlóðanna. Í undirbúningi er að byggja þar þúsundir nýrra íbúða. Hringbrautarlóðin hentar aftur mjög vel fyrir íbúðabyggð. Það vantar sárlega íbúðalóðir nálægt miðbænum eins og umræða um byggð í Vatnsmýrinni hefur dregið fram og mikil umferð um Miklubrautina kvölds og morgna sýnir.  Hrókera mætti þessum byggingaráformum og hafa íbúðabyggðina við Hringbraut en spítalann í Vogabyggð.

Betri staðsetning getur flýtt fyrir

Skoða þarf staðsetningu spítalans upp á nýtt með ofangreint í huga. Óþarfi er að láta það tefja framkvæmdir. Þó taka þurfi 2-3 ár í nýtt staðarval, breytingu skipulags og annan undirbúning mun nýr spítali geta komið í gagnið fyrr en ef Hringbrautarlóðin verður nýtt.

Hanna má besta mögulega fyrirkomulag bygginga fyrir starfsemina án takmarkana.  Bjóða má verkið út í heilu lagi sem lækkar byggingarkostnaðinn verulega, jafnvel um 40% miðað við að byggt verði í mörgum minni áföngum eins og gera þarf við Hringbraut.   

Fjármagna má verkefnið með því að selja lóðir og húsnæði spítalans við Hringbraut, í Fossvogi, Vífilsstaði, Klepp, Grensás og um 10 aðrar eignir sem Landspítalinn hefur nýtt.  Verðmætið gæti númið 30-40 milljörðum króna sem dugar talsvert upp í nýjan spítala.  

Með íbúðabyggð í stað spítala við Hringbraut verður álag á gatnakerfið minna og borgin betri fyrir íbúana.  Landspítalinn verður líka betri spítli, á betri stað og kostar minna en ef Hringbrautarlóðin verður nýtt undir spítalann.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×