Viðskipti innlent

Hagvöxtur tæplega tvö prósent í fyrra

Stefán Árni Pálsson skrifar
Innanlandsneyslan dregur hagvöxtinn áfram en þjóðarútgjöld jukust um 5,3%.
Innanlandsneyslan dregur hagvöxtinn áfram en þjóðarútgjöld jukust um 5,3%. vísir/hari
Landsframleiðsla jókst að raungildi um 1,9% á árinu 2014 og hefur ekki verið hærri að raungildi frá árinu 2008. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofu Íslands.

Innanlandsneyslan dregur hagvöxtinn áfram en þjóðarútgjöld jukust um 5,3%.

Einkaneysla jókst um 3,7%, samneysla um 1,8% og fjárfesting jókst um 13,7%. Útflutningur jókst um 3,1% á sama tíma og innflutningur jókst 9,9% þannig að þrátt fyrir verulegan afgang af vöru- og þjónustuviðskiptum á liðnu ári, eða 128 milljarða króna, dró utanríkisverslun hagvöxtinn niður.

Í tilkynningunni frá Hagstofunni segir að fara þurfi aftur til ársins 2006 til að sjá meiri vöxt í fjárfestingu en á síðasta ári. Hún jókst um 13,7% - þar af var um 15% vöxtur bæði í íbúðafjárfestingu og hjá atvinnuvegunum.

Halli á launa- og fjáreignatekjum frá útlöndum er fremur lítill, annað árið í röð, samkvæmt bráðabirgðatölum sem Seðlabankinn hefur nú birt. Það ásamt afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum leiddi til jákvæðs viðskiptajafnaðar á árinu 2014. Hann nam rúmum 88 milljörðum króna, 4,4% af landsframleiðslu á árinu. Til samanburðar var viðskiptajöfnuður jákvæður um 125 milljarða árið 2013.

Viðskiptakjör bötnuðu um 1,9% á árinu 2014. Það ásamt jákvæðum viðskiptajöfnuði varð til þess að þjóðartekjur jukust meira en sem nam vexti landsframleiðslu eða um 3,3%. Árið 2013 jukust þjóðartekjur um 11,7%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×