Skoðun

Hvaða skilyrði settirðu Dagur?

Ragnar Sigurðsson Proppé skrifar
Í síðastliðinni viku var opinberlega greint frá því að Sádi-Arabar hyggist leggja fram eina milljón bandaríkjadala til byggingar mosku í Reykjavík. Borgarstjóri Reykvíkinga, Dagur B. Eggertsson, taldi þessi tíðindi kalla á skýringar og umræðu. Í sjónvarpsfréttum varpaði borgarstjóri fram þeirri spurningu hvort fjárstuðningi Sádi-Araba fylgdu einhver skilyrði eða áherslur sem stönguðust á við mannréttindi eða það samfélag sem við vildum búa í. Kvaðst borgarstjóri ætla að afla upplýsinga um reynslu annarra landa af slíkum fjárstuðningi.



Áherslur Sáda stangast á við íslenskt samfélag

Í nágrannalöndum hafa ráðamenn systurflokks borgarstjóra stigið fast niður þegar Sádi-Arabar hafa boðið fram fé til að byggja moskur. Jonas Gahr Støre, leiðtogi norska Verkamannaflokksins, lýsti því yfir að ekki kæmi til greina að moskur yrðu byggðar í Noregi fyrir fé Sáda. Þar væri ekki trúfrelsi og bannað byggja kirkjur. Mannréttindabrot Sádi-Araba leiða jafnframt til þess að útilokað hlýtur að vera að borgin samþykki að Félag múslima á Íslandi byggi mosku fyrir slíkt fé á lóð borgarinnar. Áherslur Sáda í málefnum kvenna og samkynhneigðra stangast á við það samfélag sem við búum í.



Formaður múslima ánægður

Þegar fjölmiðlar báru tíðindin undir Sverri Agnarsson, formann Félags múslima á Íslandi, kvað hann fjárstuðning Sádi-Araba gleðitíðindi og gerði lítið úr því þótt Sádi-Arabar virtu ekki mannréttindi. Salmann Tamimi, sem gegndi formennsku í félaginu þar til fyrir nokkrum árum, brást hins vegar ókvæða við og sagði að félagið myndi aldrei þiggja styrk frá Sádi-Arabíu sem væri "fasistaríki". Viðbrögð Sverris Agnarssonar við þessum ummælum voru hins vegar þau að hann einn talaði fyrir hönd félagsins.

Nú reynir á skilyrði borgarinnar

Í ljósi viðbragða formanns Félags múslima á Íslandi er ljóst að borgarstjóri verður að grípa í taumana. Yfirlýsingar formanns Félags múslima á Íslandi þar sem lítið er gert úr því að styrkveitandinn virði ekki jafnrétti og stundi mannréttindabrot hljóta að fela í sér brot á þeim skilyrðum sem Reykjavíkurborg setti fyrir úthlutun lóðarinnar og leiða til á tafarlausrar afturköllunar lóðarúthlutunarinnar. Má ekki treysta því að Dagur B. Eggertsson hafi sem formaður borgarráðs farið að tillögu skipulagsráðs frá 27. apríl 2011, sem var jafnframt samþykki í borgarráði, og krafist þess að Félags múslima á Íslandi gerði grein fyrir fjármögnun framkvæmda á lóðinni?




Skoðun

Sjá meira


×