Ráðamenn á Húsavík telja að nú sé ekki eftir neinu að bíða fyrir ríkisvaldið að hefjast handa við sinn þátt í sköpun iðnaðarsvæðisins á Bakka, sem er að tengja það við Húsavíkurhöfn með vegagerð og eins kílómetra jarðgöngum undir Húsavíkurhöfða. Bæjarráð Norðurþings segir brýnt að Vegagerðin fái heimild nú þegar til þess að bjóða verkið út.
Að sögn Snæbjörns Sigurðarsonar, verkefnisstjóra Norðurþings, er þessi áskorun send í ljósi upplýsinga um að PCC stefni nú að því að hefja jarðvegsframkvæmdir á lóðinni í júní og að sökklar kísilverksmiðju verði steyptir síðla sumars. Þá hafi upplýsingar borist frá Eftirlitsstofnun EFTA um að niðurstaða í rannsókn á meintum ríkisstyrkjum vegna orkusamninga liggi fyrir eigi síðar en seinnipartinn í maí.
