Viðskipti innlent

Framkvæmdir komast vonandi á fullt í sumar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Forstjóri Landsvirkjunar segir óhjákvæmilegt að framkvæmdir í Þingeyjarsýslum tefjist vegna rannsóknar Eftirlitsstofnunar EFTA á því hvort ólögmæt ríkisaðstoð felist í samningum vegna kísilvers á Húsavík. Hann vonast þó til að framkvæmdir komist á fullt í sumar.

Þýska fyrirtækið PCC er búið að tryggja fjármögnun kísilversins og stefndi að því að hefja framkvæmdir á iðnaðarlóðinni á Bakka í kringum næstu mánaðamót. Skömmu fyrir jól kom hins vegar óvænt babb í bátinn þegar ESA ákvað að hefja rannsókn á því hvort ólögmæt ríkisaðstoð fælist í samningum Landsvirkjunar og Landsnets við PCC. 80 milljarða króna framkvæmdir eru í húfi, einn af lykilþáttum þess hagvaxtar sem spáð er í landinu, og því er óþægilegt að hafa þetta mál í óvissu.

Fyrirhugað kísilver PCC á Bakka.Grafík/PCC.
Fulltrúar Landsvirkjunar, sem og Landsnets, funduðu með ESA í síðustu viku. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir um fund þeirra að farið hafi verið yfir málið og að Landsvirkjun myndi í framhaldinu skila inn skriflegum athugasemdum. Ennþá væri ekki ljóst hvaða áhrif þetta hefði á verkefnið. 

Það er þó ólíklegt að allt fari á fullt á Húsavík á næstu vikum. Tafir á verkefninu eru óhjákvæmilegar, að sögn Harðar. „Hversu langar er erfitt að segja. En við vonum að það verði ekki nema nokkrir mánuðir.“ 

Undirbúningsframkvæmdir vegna jarðvarmavirkjunar á Þeistareykjum voru umtalsverðar á nýliðnu ári og Landsvirkjun er núna með stærstu verkþætti í útboði, vélasamstæðu og stöðvarhús. „Við munum halda því ferli áfram og svo munum við vonandi komast af stað næsta sumar,“ svarar forstjórinn spurningu um hvenær hann búist við að framkvæmdir fari á fullt.

Fyrirhuguð Þeistareykjavirkjun.Grafík/Landsvirkjun.

Tengdar fréttir

Fjármögnunin tryggð en ESA tefur framkvæmdir

Heildarfjármögnun kísilvers PCC á Bakka við Húsavík hefur verið tryggð. Óvissa er hins vegar um hve löng töf verði vegna þeirrar ákvörðunar ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, að rannsaka hvort ólögmæt ríkisaðstoð felist í samningum Landsvirkjunar og Landsnets vegna kísilversins.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.