Viðskipti innlent

Landsvirkjun undirritar samning um vélasamstæðu Þeistareykjavirkjunar

Atli Ísleifsson skrifar
Stefnt er að því að virkjunin hefji rekstur haustið 2017.
Stefnt er að því að virkjunin hefji rekstur haustið 2017. Mynd/Landsvirkjun
Landsvirkjun undirritaði í dag samning við Fuji Electric og Balcke Dürr um kaup á 45 MW vélasamstæðu fyrir Þeistareykjavirkjun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsverkjun.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segist mjög ánægður með undirritun samningsins sem hann segir stóran áfanga í áformum Landsvirkjunar um uppbyggingu jarðvarmavirkjunar á Þeistareykjum. „Hagstæð tilboð bárust í verkið og við fögnum því að skrifa undir samning við þessa öflugu aðila. Undirbúningur virkjunarinnar er þegar hafinn en við stefnum að því að Þeistareykjavirkjun geti hafið rekstur haustið 2017.”

Í tilkynningunni segir að útboð vegna verksins hafi verið auglýst innan Evrópska efnahagssvæðisins og var opnað fyrir tilboð 12. nóvember 2014. „Fjögur tilboð bárust í verkið og var tilboð Fuji Electric og Balcke Dürr fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið. Tilboðið er 75% af kostnaðaráætlun verkkaupa. Heildarfjárhæð samnings er um 42 milljónir bandaríkja dala.

Verkið felst í deilihönnun, framleiðslu, flutningi, uppsetningu og prófunum á 45 MW jarðgufuhverfli, rafala og búnaði fyrir kalda enda með viðeigandi varahlutum fyrir 1. áfanga Þeistareykjavirkjunar. Í verkinu felst einnig valréttur á viðbótar 45 MW vélasamstæðu fyrir 2. áfanga virkjunarinnar.

Á meðfylgjandi ljósmynd frá undirritun samnings séð frá vinstri: Alexander Wisse fyrir hönd Balcke-Dürr, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar og Katsutoshi Shoji fyrir hönd Fuji Electric.

Þeistareykjavirkjun geti hafið rekstur haustið 2017

Unnið hefur verið að undirbúningi jarðvarmavirkjunar við Þeistareyki til fjölda ára en svæðið býður upp á mikla möguleika til jarðvarmavinnslu. Gert er ráð fyrir að 45 MW virkjunaráfangi á Þeistareykjum verði fyrsta skrefið í varfærinni uppbyggingu sjálfbærrar jarðvarmavinnslu á svæðinu. Áætlanir gera ráð fyrir að framkvæmdir við byggingu virkjunar hefjist í vor en stefnt er að því að virkjunin hefji rekstur haustið 2017.

Framkvæmdaáætlun gerir ráð fyrir byggingu stöðvarhúss sem samanstendur af þjónustubyggingu og verkstæði ásamt tveimur vélasölum. Byggð verður skiljustöð, niðurrennslismannvirki og dælustöð fyrir kaldavatnsveitu ásamt því að leggja gufupípur að þremur núverandi borsvæðum. Áætlað er að það taki tæp þrjú ár að byggja stöðvarhúsið, setja upp eina aflvél og leggja gufuveituna. Auk þess eru helstu verkþættir smíði og uppsetning rafbúnaðar og stjórnkerfis virkjunar. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við byggingu virkjunar hefjist í vor.

Opnað var fyrir tilboð í byggingar Þeistareykjavirkjunar 19. febrúar. Tvö tilboð bárust annarsvegar frá ÍAV hf.  og hinsvegar frá LNS Saga ehf. Einnig var opnað fyrir tilboð 26. febrúar í veitur virkjunarinnar og bárust þrjú tilboð frá: ÍAV hf; LNS Saga hf. og LNS AS; Héðinn hf. Yfirferð tilboða stendur yfir og stefnt er að undirritun samninga á næstu vikum.“

Frá undirritun samningsins.Mynd/Landsvirkjun

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.