Viðskipti innlent

Olís semur við Opin kerfi

Stefán Árni Pálsson skrifar
Á mynd frá vinstri, Gunnar Guðjónsson, forstjóri Opinna kerfa, Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs OK, Sigurgísli Melberg, forstöðumaður notendalusna hjá OK, Sigurður Long forstöðumaður UT deildar hjá Olís og Einar Marinósson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Olís.
Á mynd frá vinstri, Gunnar Guðjónsson, forstjóri Opinna kerfa, Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs OK, Sigurgísli Melberg, forstöðumaður notendalusna hjá OK, Sigurður Long forstöðumaður UT deildar hjá Olís og Einar Marinósson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Olís.
Olíuverzlun Íslands og Opin kerfi hafa að undangengnu útboði gert með sér samstarfssamning um heildarlausn hvað varðar upplýsingatækni fyrir Olís og tengd fyrirtæki. Nær samningurinn yfir allan almennan notendabúnað, netbúnað, kassakerfislausnir ásamt öðrum búnaði og þjónustu á sviði upplýsingatækni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Opnum Kerfum. Í tilkynningunni segir að með samstarfinu verði allt utanumhald og umsýsla með tölvubúnað einfölduð til muna og á sama tíma tryggður aðgangur að nýjustu tækni og hágæða búnaði. Þá verði Olís tryggður aðgangur að sérfræðingum og þjónustu- og tækniborði Opinna kerfa sem tryggir öruggan og stöðugan rekstur upplýsingakerfa með fyrirbyggjandi aðgerðum og ráðgjöf.

„Við val okkar á samstarfsaðila var mikilvægt fyrir okkur að fá sterkan bakhjarl með breiða og góða vörulínu og lausnamengi sem þjónar okkar þörfum. Með því að ganga til samstarfs við öflugan aðila eins og Opin kerfi verður öll umsýsla hvað varðar upplýsingatækni okkar einfaldari og skilvirkari“, segir Sigurður Long forstöðumaður Upplýsingatæknideildar Olís

„Opin kerfi er þjónustufyrirtæki og það er okkar markmið að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu á öllum sviðum. Það er því mikið ánægjuefni að Olís hafi valið Opin kerfi sem samstarfsaðila sinn hvað varðar þeirra upplýsingatæknimál. Hlutverk okkar verður að sjá til þess að allar lausnir fyrirtækisins á upplýsingatæknisviðinu verða þær bestu sem í boði er hverju sinni. Opin kerfi er í mikilli sókn á þessu sviði ásamt öðrum og við hlökkum til þessa samstarfs", segir Sigurgísli Melberg, forstöðumaður notendalausna hjá Opnum kerfum.

Olíuverzlun Íslands hf. var stofnað 3. október 1927. Félagið hefur fylgt þeirri þróun sem átt hefur sér stað í íslensku atvinnulífi allt frá stofnun þess. Olíuverzlun Íslands er í dag þekktari undir nafninu Olís en starfsemi félagsins er skipt upp í þrjú meginsvið: Smásölusvið, fyrirtækjasvið og fjármálasvið auk stoðsviða sem eru starfsmannasvið og markaðssvið. Félagið rekur fjölda þjónustustöðva og útibúa undir vörumerki Olís ásamt sjálfsafgreiðslustöðvum undir vörumerki ÓB - ódýrt bensín.  Þá rekur félagið verslun undir nafninu Rekstrarland sem staðsett er í Mörkinni 4, Reykjavík.

Opin kerfi var stofnað árið 1985 og fagnar því 30 ára afmæli á þessu ári og hefur á að skipa öflugu teymi reyndra sérfræðinga á flestum sviðum upplýsingatækni með langa reynslu af ráðgjöf, þjónustu og innleiðingu lausna hjá flestum af stærstu og kröfuhörðustu fyrirtækjum og stofnunum landsins. Opin kerfi er samstarfs- og þjónustuaðili Verne Global þar sem hýsingarlausnir fyrirtækisins og innri kerfi eru rekin í einu fullkomnasta gagnaveri heims í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×