Viðskipti innlent

Spá myndarlegum vöruskiptaafgangi

Allt stefnir í myndarlegan afgang af vöru- og þjónustujöfnuði samkvæmt greiningu Íslandsbanka.
Allt stefnir í myndarlegan afgang af vöru- og þjónustujöfnuði samkvæmt greiningu Íslandsbanka. vísir/gva
Allt stefnir í myndarlegan afgang af vöru- og þjónustujöfnuði samkvæmt greiningu Íslandsbanka. Greiningardeildin segir afgang af vöruskiptum hafa verið „sáralítinn“ á síðasta ári.

Vöruskiptajöfnuðurinn skrapp verulega saman, úr 40 milljörðum árið 2013 í 1,6 milljarð árið 2014. „Léleg loðnuvertíð, lágt álverð framan af ári, rafmagnsskömmtun til álvera undir vetrarlok og allhraður vöxtur innflutnings neyslu- og fjárfestingarvara voru helstu ástæður þessa,“ segir í greiningunni.

Bankinn byggir spá sína um batnandi vöruskiptajöfnuð á hagstæðara afurðaverði og aukinni framleiðslu og loðnuveiði innanlands. Líkur séu á talsverðri aukningu vöruútflutnings og batnandi viðskiptakjörum við útlönd. Þar skipti lækkun eldsneytisverðs og annarra innfluttra hrávara miklu á meðan verð á helstu útflutningsafurða hefur ýmist hækkað eða staðið í stað.

Þjónustuviðskipti voru jákvæð um 129 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins samkvæmt tölum Seðlabankans. Áætlað er að þjónustuafgangur á árinu 2014 hafi verið u.þ.b. 140 milljarðar króna. Því varð afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum á síðasta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×